Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 19:24:49 (1321)

1997-11-17 19:24:49# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[19:24]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þær umræður sem hafa farið fram um þetta mikilvæga mál. Ég tel að það hafi verið afar þýðingarmikið að taka það til umræðu og ég þakka fyrir þau orð sem hv. þingmenn hafa látið falla um þá skýrslugerð sem umhvrh. og umhvrn. hefur beitt sér fyrir að leggja fyrir þingið, og eins þá skýrslu sem er allítarlegri og hefur verið dreift víða og allur almenningur á aðgang að. Vissulega veitir ekki af að menn kynni sér þetta mál betur en gert hefur verið á undanförnum mánuðum eða missirum. Tíminn er sannarlega að hlaupa frá okkur hvað það varðar að átta okkur á því hvernig við getum staðið að þeim samningum sem væntanlega og vonandi verða gerðir um að draga úr losun svokallaðra gróðurhúsalofttegunda.

Út af þeirri umræðu sem hefur verið nokkuð áberandi, að annaðhvort sé ágreiningur innan ríkisstjórnar eða að stefna ríkisstjórnarinnar sé ekki skýr í þessu efni, vil ég ítreka og undirstrika að það kom mjög ítarlega fram í ræðu minni áðan að eftir Berlínarfundinn í apríl 1995, þar sem segir að taka beri tillit til mismunandi upphafsstöðu ríkja og hvernig þau hafi nú þegar tekið á þeim vanda við uppbyggingu hagkerfis og á auðlindagrunni, þörfinni fyrir að viðhalda sjálfbærum hagvexti, þeirri tækni sem tiltæk er og öðrum kringumstæðum hvers og eins ríkis, að eftir þennan fund, og að teknu tilliti til þessa boðskapar frá þeim fundi eða því sem stundum hefur verið kallað Berlínarumboðið, lagði ég fyrir ríkisstjórnina að við tækjum virkan þátt í þessum viðræðum og reyndum að hafa áhrif á stefnumótunina, reyndum að láta okkar sjónarmið og skoðanir koma þar ítarlega fram eins og hér hefur verið tíundað í umræðunni og ég gerði grein fyrir í upphafsræðu minni og reyndar líka komið fram bæði hjá hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum. Mig langar, með leyfi forseta, að taka af allan vafa í þessu efni og lesa þá tillögu sem ég lagði fyrir ríkisstjórnina 4. ágúst 1995 og hún samþykkti á fundi sínum 11. ágúst, nokkrum dögum seinna, og byggir á þeirri ákvörðun eða tillögu, að við tökum þátt í starfinu. Hún var í sex töluliðum og hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í fyrsta lagi. Að ákvæðum núverandi samnings verði ekki breytt en ný skuldbindingarákvæði til að styrkja samninginn komi fram í bókun við hann.

Í öðru lagi. Að væntanleg bókun og nýjar skuldbindingar taki til allra gróðurhúsalofttegunda en ekki einvörðungu koltvíoxíðs.

Í þriðja lagi. Að töluleg markmið um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda miðist á fyrsta stigi við núverandi hlutdeild hreinna orkugjafa í orkunotkun viðkomandi lands í stað tiltekins viðmiðunarárs. Til dæmis það ríki sem nú þegar aflar 20--30% af heildarorkuþörf frá hreinum og endurnýjanlegum orkugjöfum yrði undanþegið frekari aðgerðum þar til önnur vestræn ríki hefðu almennt náð sama marki.

Í fjórða lagi. Að vinna að því að nýjar skuldbindingar takmarki ekki möguleika aðildarríkjanna til að auka nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa vegna iðnaðarframleiðslu jafnvel þótt framleiðsluferlin ykju losun gróðurhúsalofttegunda staðbundið, enda komin af stað í framleiðslu sem hefði meiri losun í alþjóðlegu samhengi. Á sama hátt verði það metið jákvætt ef ríki stuðlar að útflutningi á orku sem framleidd er með hreinum og endurnýjanlegum orkugjöfum.

Í fimmta lagi. Að aðgerðir sem auka gróður og binda þar með aukið kolefni í jörðu verði metnar jafngildar aðgerðum til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.

Í sjötta lagi. Þau ríki sem sýna fram á að þau geti ekki, miðað við þá tækni sem í boði er, dregið frekar úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda verði undanþegin tölulegum ákvæðum þar að lútandi.``

Þetta voru þær tillögur sem ég lagði fyrir ríkisstjórnina og byggðar eru á tillögum fulltrúa frá þeim ráðuneytum sem mest höfðu þá komið að þessu og hafa komið að málinu síðar, iðnrn., sjútvrn., landbrn., samgrn. og utanrrn. auk umhvrn. Auðvitað hafa áherslur breyst nokkuð miðað við þennan upplestur eða upptalningu og skýrst nánar hvar áhersluatriðin væru, hvað væri hugsanlegt og vænlegt að ná fram af þessum hugmyndum okkar og við höfum einbeitt okkur að því.

Varðandi það sem síðan hefur komið fram hér og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson nefndi m.a. og vitnaði til fundargerðar eða minnispunkta sem sendinefndin, sem var á síðasta samninganefndarfundinum í Bonn, hefur látið frá sér fara, að kannski megi ekki lesa beint út úr okkar tillögum að við höfum lagt áherslu á að endurnýjanlegum orkugjöfum, sem við höfum beitt til nýrra iðnaðarferla eða nýtt til þess, yrði haldið utan við, þá höfum við í tillögum okkar og þeirri tillögu sem þar var lögð fyrir og útskýrð, lagt sérstaka áherslu á að taka tillit til þessara endurnýjanlegu orkugjafa og hlutfall iðnaðarferla í útblæstrinum og sett inn í jöfnu með öðrum stærðum eða breytum eða hvað við viljum nú kalla það þegar við fjöllum um uppsetningu dæma, t.d. fólksfjölda af því að hv. þm. Kristín Halldórsdóttir spurði einnig um hvernig við hefðum hugsað okkur að láta það hjálpa okkur í málinu. Það gerir það ef tillit fæst tekið til ástandsins eins og það er í dag af því að íbúafjölgun er meiri hér en hjá sumum öðrum þessara þjóða, sem við erum að glíma við í hinum svokallaða Annex I ríkjahópi. Við þurfum ekki þess vegna að grípa til sérstakra fjölgunaraðgerðaráðstafana til að láta það telja, en það getur svo verið sératriði út af fyrir sig að velta fyrir sér en ég ætla ekki að eyða tíma í það á þessum fundi.

[19:30]

Ég vil líka láta það koma fram, hæstv. forseti, að við höfum að sjálfsögðu fylgt leiðbeiningum vísindanefndarinnar um bókhald þegar við stillum upp þessu dæmi og reiknum út hvernig þessar gróðurhúsalofttegundir telja hér hjá okkur. Og í skýrslu til skrifstofu samningsins hefur verið tekið skýrt fram að markmið ríkisstjórnarinnar um losun gróðurhúsalofttegunda miðist við að halda nýrri stóriðju fyrir utan. Þetta sjónarmið er einnig vel skýrt í skýrslu nefndar samningsins, sem fór yfir skýrslugjöf íslenskra stjórnvalda, þannig að þetta hefur komið fram og við höfum haldið þessu til haga.

Það má kannski einnig nefna hér að þótt það sé e.t.v. ekki háleitt markmið þá er það þó svo, og betra heldur en hjá sumum öðrum aðildarríkjum samningsins, að allt bendir til þess að ríkisstjórnin muni ná þeim markmiðum sínum að losun gróðurhúsalofttegundanna, að teknu tilliti til bindingar eins og við höfum lagt mikla áherslu á að væri hluti af málinu, verði ekki meiri hér árið 2000 en árið 1990 ef nýrri stóriðju er haldið fyrir utan. Við Íslendingar höfum þannig víða haldið þessu sjónarmiði til haga og náð að þessu leyti til betri árangri en mörg önnur aðildarríki samningsins, sem hafa alls ekki getað staðið við þetta markmið þótt þau væru ekki að bæta við sig nýjum stóriðjukostum.

Hæstv. forseti. Í ljósi þessa og þess sem hefur komið fram hér í umræðunum og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson benti m.a. á að nokkuð hafi miðað í Bonn leyfi ég mér nokkra bjartsýni hvað varðar samningaferlið og niðurstöður á Kyoto-fundinum og að sjálfsögðu það að við getum orðið aðilar að samningnum. Ég leyfi mér að telja það nauðsynlegt eins og ég gerði ítarlega grein fyrir í ræðu minni í upphafi og veit að það er vilji íslenskra stjórnvalda, um það er engin vafi. Það er sameiginleg áhersla og vilji ríkisstjórnarinnar að við séum aðilar að þessum samningi. En það hefur margsinnis komið fram hjá mér og það þarf ekki að vitna til neinna nýrra ummæla og ekki annarra ráðherra í því efni, að við verðum auðvitað að meta stöðuna þegar við sjáum hvernig þetta lítur út, þegar við sjáum hvernig Kyoto-fundurinn fer og hver verður hin endanlega tillaga sem þar kemur fram, og sjá hvernig okkur tekst að standa við þetta. Vonandi getum við orðið aðilar að samningnum. Það er alveg skýrt í mínum huga.

Það er hins vegar rétt að ítreka það og undirstrika að sérstaða okkar er auðvitað mjög mikil í þessu máli. Við eigum erfitt með að beita sömu aðferðum og aðrar þjóðir hafa gert.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir spurði ofurlítið um t.d. útreikning og áhrif. Ég hef því miður ekki ítarlegar upplýsingar fyrir framan mig til að gefa henni varðandi kostnaðartölur og áhrif af hugsanlegum aðgerðum. Þó hefur mér verið bent á að athuganir sem gerðar hafa verið af OECD gætu bent til þess að þjóðhagslegur kostnaður af því að binda losun OECD-ríkjanna við árið 1990 geti reyndar orðið á bili allt frá því að vera 0,5% aukning af vergri landsframleiðslu, þannig að það getur hjá sumum ríkjum endað í einhverjum hagnaði eða hagsbót, og í að vera allt að 2% fall í vergri landsframleiðslu. Byggir þetta þá á því að allra hagkvæmustu leiða sé leitað.

Líka má benda á það sem ESB hefur sett sér, og við sumir hér í umræðunum höfum sagt að sé svolítill tvískinnungur, að ætla að ná 15% losun innan sambandsins í heild en leyfa sér síðan að skipta því mjög á milli þjóða og taka ekki tillit til þess að aðrar þjóðir geti náð einhverjum slíkum samningum. Það munu vera litlar 800 milljónir tonna sem Evrópusambandið ætlar sér að skera niður með þessum 15%, en gerir það líka á þann hátt, og það hefur verið kynnt í skýrslu sem Evrópusambandið hefur sett fram á Evrópuþinginu, að veruleg hagkvæmni er fólgin í að dreifa losuninni á einstök ríki sambandsins. Með þeim hætti benda athuganir ESB til þess að takast megi að ná þessum árangri, þessum mikla samdrætti, án verulegs tilkostnaðar. Það er alveg ljóst að 15% hjá okkur yrðu okkur miklu erfiðari og kostnaðarsamari heldur en virðist vera þarna. Það undirstrikar líka að það er hagkvæmt þegar á heildina er litið að fleiri þjóðir fái að takast á við þetta sameiginlega heldur en að setja fastákveðin losunarmörk á hverja einstaka þjóð.

Ég vil líka draga fram, í ljósi þessara stóru talna, að við erum örsmá í þessu og ég minni á það aftur að við erum að tala um 2,7 eða 3 milljónir tonna á móti þessu sem ég nefndi hér --- bara samdrátturinn í Evrópusambandinu er 800 milljónir tonna. Og við erum að tala um 0,01% af losun í heiminum, 1% miðað við Norðurlöndin og við erum undir OECD-ríkjunum. Okkur finnst því ljóst að margt sé erfitt í þessu.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir spyr hvað sé verið að gera og segir að sér finnist þær aðgerðir ekki vera mjög metnaðarfullar sem koma fram í skýrslunni og það sem verið er að vinna að. Það er auðvitað ljóst að við höfum ekki verið að fást við þetta lengi. Við erum að þessu núna, þetta er verkefni sem er í fullum gangi. Það er ekki langt síðan þessar nefndir voru settar af stað til þess að framfylgja markmiðunum. Og vegna þess að menn hafa kannski ekki verið nægjanlega meðvitaðir um hvað væri fram undan í þessu hafa menn kannski ekki heldur verið nægjanlega röggsamir að fara af stað að leita þeirra leiða sem tiltækar eru og verða sannarlega ekki auðveldar fyrir okkur. Ég hygg að við verðum, eins og ég hef reyndar áður sagt og kemur fram í skýrslunni, að taka tillit til þessara þátta í öllum okkar atvinnugreinum og samgöngur og sjávarútvegur verði að vera aðilar að því. Það er ekki hægt að líta svo á að neinn einn verði undanskilinn í þessu.

Það má svona rétt til gamans velta því fyrir sér af því einhver hv. þm. nefndi rafbraut til Keflavíkur, ég held að það hafi verið hv. 4. þm. Austurl., (HG: Og Hafnar í Hornafirði.) já, og Hafnar í Hornafirði, ég veit ekki hvort það er eins hagkvæmt, en ég get vel ímyndað mér það. Núna, þegar við ætlum að fara að takast á við það að tvöfalda Reykjanesbrautina --- ég veit ekki hve fljótt en það er mikið í umræðunni --- væri þá ekki vert að skoða það til samanburðar að setja rafbraut til Keflavíkur og velta því fyrir sér hvort það sé ekki einn þátturinn sem við verðum að horfast í augu við? Það eru staðreyndir að við verðum að takast á við þetta verkefni í samgöngunum og í umferðinni ekki síður en í svo mörgum öðrum greinum þjóðfélagsins.

Hæstv. forseti. Ég sé að tími minn er að renna út. Ég hef sjálfsagt ekki svarað þeim fyrirspurnum sem kann að hafa verið beint til mín, það var kannski ekki mjög mikið af þeim beinlínis. En ég vil aftur þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram og veit að þetta er ekki síðasta orðið í umræðunni (Forseti hringir.) en ríkisstjórnin mun á næstu dögum setjast niður til að búa til það samningsumboð sem ég vonast til að umhvrh. fái að fara með á þennan mikilvæga fund í Kyoto.