Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 19:45:18 (1324)

1997-11-17 19:45:18# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[19:45]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Undir lok þessarar umræðu kemur í hug að vissulega hefði verið æskilegt að fyrir Alþingi lægi ályktun, þáltill., um þessi stóru mál sem drægju upp stöðuna og hefði verið prófsteinn á vilja þingsins. Ég hreyfði þeirri hugmynd í umhvn. fyrir nokkrum vikum hvort við ættum ekki að gera það að okkar verkefni í nefndinni að fara yfir þau mál með tilliti til þess að leggja eitthvað til málanna. Það var ekki brugðist við því. Ég hreyfði því þar sem hugmynd. Formaður nefndarinnar er ekki viðstaddur núna og kannski ekki bestu aðstæður til að taka þannig á máli. En það hefði vissulega verið æskilegt að Alþingi hefði haft fyrir framan sig nokkra megindrætti sem veganesti af hálfu þingsins inn í þetta geysilega stóra mál. Það er fagnaðarefni að atvinnulífið, sem aðrir, er að taka við sér og átta sig á því hvað hér er raunverulega á ferðinni og hvað er í húfi. Það gildir auðvitað um allar greinar.

Þar sem minnst var á hinn stóra þátt samgöngumála þá er margt í þróun nú upp á síðkastið sem hefur gengið í raun alveg gegn því sem ástæða væri til að reyna að ná fram. Ég talaði í fullri alvöru um þær hugmyndir sem ég varpaði fram um að nota rafmagnið á láglendinu sunnan lands og suðvestan lands og minni á þær lestir þungaflutningabifreiða sem keyra eftir veikburða vegakerfi og flytja hráefni landshlutanna á milli. Ætli það væri nú ekki munur að geta rennt þessu á rafbraut fyrir innlendri orku eftir Suðurlandi og Suðvesturlandi og leggja svifbraut yfir Skeiðarársand (Forseti hringir.) þannig að menn yrðu tilbúnir að mæta þar hugsanlegum náttúruhamförum með betra móti en verið hefur. Það er eitthvað slíkt sem við verðum að hafa sem framtíðarsýn og skapa sjálfbæra orkustefnu. (Forseti hringir.) Það er hvetjandi og við eigum að taka þannig á málum en ekki (Forseti hringir.) að hlaða undir meira og minna úreltar hugmyndir í sambandi við orkunýtingu.