Loftslagsbreytingar

Mánudaginn 17. nóvember 1997, kl. 19:47:55 (1325)

1997-11-17 19:47:55# 122. lþ. 26.8 fundur 180. mál: #A loftslagsbreytingar# skýrsl, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[19:47]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þm. um að við þurfum að taka á fjölmörgum þáttum og beita öllum tiltækum ráðum ef við eigum að geta staðið okkur í þessu efni, sem við viljum og verðum að gera. Einn þátturinn enn --- af því að hv. þm. var að tala um vöruflutninga --- og við höfum ekki talað um er sú breyting sem orðið hefur á vöruflutningum hjá okkur að undanförnu, að færa vöruflutningana af sjó upp á land. Það er e.t.v. ekki merkilegur boðskapur að koma með rétt þegar menn hafa verið að þróa flutninga í þá áttina, að segja að kannski sé ástæða til að fara með þá aftur í hina áttina og flytja vöruflutningana í einhverjum mæli aftur út á sjóinn. En þó er það svo að ég hygg að menn þurfi bara að taka ýmsa þætti aftur upp til nýrrar hugsunar og velta mörgum steinum við í því efni.

Af því að ég hef enn örlítinn tíma, hæstv. forseti, langar mig að skjóta inn viðbót í sambandi við þær hugmyndir og aðgerðir Evrópusambandsins um þann 15% samdrátt sem þeir telja sig geta komist í gegnum með þessu samstarfi margra þjóða án verulegs tilkostnaðar, að sérstaða okkar er hins vegar svo mikil að jafnvel þó að við reyndum að gera nánast allt eða taka upp allar þær tillögur og öll þau atriði sem Evrópusambandið er að leggja til til að ná þessum 15%, þá mundi það nánast ekki þýða neitt fyrir okkur. Það mundi nánast ekki gefa okkur nokkurn samdrátt eða nokkurn sparnað í losun gróðurhúsalofttegundanna. Svona eru nú aðstæðurnar misjafnar og eins og ég hef margbent á eru okkar aðstæður afar sérstakar.