Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 15:15:57 (1345)

1997-11-18 15:15:57# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[15:15]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Það átti að vera skýrt í ræðu minni áðan að ég mun styðja þetta frv. með þeim fyrirvara að ég treysti mér ekki til þess að styðja 2. gr. þar sem kjarasamningur skyldar launamenn til þess að greiða í tiltekinn lífeyrissjóð og veitir þeim ekki frelsi til þess að velja. Að öðru leyti mun ég styðja frv. Ég tel að það sé til bóta á því kerfi sem við búuum við og ég held, eins og kom fram hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni, að ekki þurfi að hafa áhyggjur af því að það sé ekki nægur meiri hluti í þinginu fyrir þessu frv. því að eins og ég nefndi áðan í ræðu minni var það var inntak ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar að það mætti alls ekki breyta þessu frv. og það yrði að fara í gegnum þingið eins og það er lagt fram. Þess vegna mun ég ekki leitast við að breyta því, en samvisku minnar vegna treysti ég mér ekki til að styðja þessa grein.