Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 15:35:01 (1350)

1997-11-18 15:35:01# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[15:35]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Árið 1974 voru samþykkt lög frá Alþingi með eftirfarandi ákvæði: ,,Öllum launþegum er rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps.`` Það var ekki orð um það hvaða réttindi lífeyrissjóðirnir ættu að veita, ekki orð um það hvort þeir gætu staðið við réttindi og ekki orð um það hvort einhver ætti að hafa eftirlit með því að þeir gætu staðið við þau. Þetta er ein makalausasta lagasetning sem mér er kunnugt um, þar sem stór hluti þjóðarinnar var skyldaður til að borga í lífeyrissjóði hvort sem hann væri í viðkomandi verkalýðsfélagi eða hjá viðkomandi vinnuveitanda sem átti aðild að viðkomandi lífeyrissjóði.

Þessi lög voru sett vegna þess að í kjarasamningunum 1969 var samið um skylduaðild að lífeyrissjóðum samkvæmt kjarasamningi en hann hafði ákaflega lítil áhrif. Það voru mjög fáir sem gengu í lífeyrissjóðina sem þá voru starfandi og settir á stofn vegna kjarasamninganna. Það var bara ekki almennur vilji fyrir því og til að ná fólkinu inn í lífeyrissjóðina var þetta ákvæði sett í lög. Því var náð fram að Alþingi setti svona lög. Eftir það fjölgaði verulega í lífeyrissjóðunum.

Það vill nú svo til að ég starfaði hjá lífeyrissjóði á þessum tíma og það var ákaflega auðvelt, á grundvelli þessara laga, að senda lögfræðing í fyrirtæki, sem ekki átti aðild að Vinnuveitendasambandinu, til að ná í iðgjald af starfsmanni sem ekki átti aðild að verkalýðsfélagi, því ,,öllum launþegum er rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps.`` Það var bara starfsstéttin sem ákvarðaði aðild en ekki það hvort menn væru í stéttarfélagi eða vinnuveitandinn í Vinnuveitendasambandinu.

Staða íslensks lífeyriskerfis var ákaflega döpur um 1980. Þá hafði geisað óðaverðbólga og sjóðirnir voru allir gjörsamlega gjaldþrota. Að segja það að verkalýðsfélögin eða aðilar vinnumarkaðarins hafi komið á góðu kerfi er ekki rétt. Í fyrsta lagi var það löggjafinn sem kom aðildinni á og síðan var það löggjafinn sem kom verðtryggingu á. Og það er verðtryggingin og hinir gífurlega háu vextir sem hafa bætt stöðu lífeyrissjóðanna. Ég vil ekki segja að þetta sé eitthvað sem hafi orðið til úr engu. Þetta hefur fengist með geysilegum þjáningum fjölda skuldara sem tóku lán hjá almennu lífeyrissjóðunum með 2,5% vöxtum sem voru hækkaðir upp í 10% raunvexti á tímabili. Þetta bætti stöðu lífeyrissjóðanna. Þetta hefur gert íslenska lífeyriskerfið svona öflugt. En skuldararnir hafa orðið að bera byrðarnar. Það eru þeir sem eru að þola ótöluleg gjaldþrot og harmleiki í fjölskyldum í landinu.

Herra forseti. Það frv. sem við ræðum um er mjög þarft. Það fyllir upp í lögin frá 1974. Það eru engin lög til um lífeyrissjóði á Íslandi nema mjög veikburða lög frá 1981, um ársreikninga og endurskoðun lífeyrissjóða. Annars er ekkert til, ekkert til um þessa gífurlegu fjármuni sem á grundvelli þeirrar aðildarskyldu frá 1974 hafa hlaðist upp í lífeyrissjóðunum --- yfir 300 milljarðar. Það eru engin lög til um þetta. Það er því mjög þarft og nauðsynlegt og brýnt að um þetta séu sett lög og lagafrv. sem við fjöllum um í dag tekur einmitt á þeim atriðum hvaða réttindi lífeyrissjóðirnir eigi að veita. Loksins eftir 23 ár er tekið á því hvaða réttindi fólkið á að fá fyrir skylduna að vera í lífeyrissjóði. Það er líka tekið á starfsleyfi lífeyrissjóðanna, rekstri þeirra og fjárreiðum. Og tekið er á innra og ytra eftirliti. Þannig að lögin eru mjög þörf og mjög brýn. Það er tekið á því að eignir og skuldbindingar standist á þannig að sjóðirnir séu ekki að lofa upp í ermina á sér eins og var 1980 þegar þeir voru orðnir gjaldþrota.

Við ræddum þetta frv. í vor og þá urðu mikil átök um það. Það frv. sem nú liggur fyrir er að mörgu leyti betra. Það er búið að skerpa á skilgreiningum, búið er að fara í gegnum það eina umferð í viðbót og búið er að laga mikið af vanköntum og lélegum skilgreiningum sem voru í fyrra frv. þannig að það er að því leyti betra.

Herra forseti. Mönnum hefur orðið tíðrætt um 2. gr. og það er eðlilegt. Í henni liggja völdin. Málið er miklu frekar valdabarátta en eitthvað annað. Þetta er spurning um það hver á að ráðskast með 300 og yfir 300 milljarða af þvinguðu sparifé landsmanna. Það er ekki þannig að þetta hafi orðið einhvern veginn til vegna þess að landsmenn vildu það --- þeir voru skyldaðir til þess með lögum.

Ókostirnir við þetta frv. má segja að séu fjögur atriði. Það er í fyrsta lagi aðildin. Það er ljóst að það samningaferli sem fór í gang sl. vor, og er þáttur í þessari valdabaráttu, fól í sér að aðilar vinnumarkaðarins vildu halda þeirri stöðu sem þeir hafa haft frá 1974. Þeir vildu halda henni, þeir tilnefna nefnilega stjórnir sjóðanna og í því eru fólgin geysileg völd og má segja að bæði Vinnuveitendasambandið og sérstaklega verkalýðshreyfingin noti þetta sem bakhjarl, þetta er hennar hryggur --- lífeyrissjóðirnir, það fjármagn sem þar er bundið.

Í 2. gr. stendur: ,,Um aðild að lífeyrissjóði, greiðslu lífeyrisiðgjalds og skiptingu iðgjaldsins milli launamanns og launagreiðanda fer að öðru leyti eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein, ...`` Það þýðir nákvæmlega það, eins og ég kom inn á áðan, að ef þessum aðilum dettur í hug að semja um lágmarkskjör í einhverri starfsgrein þá skal viðkomandi starfsmaður fara inn í viðkomandi lífeyrissjóð hvort sem hann vill eða ekki og hvort sem hann er í stéttarfélagi eða ekki, það kemur málinu ekki við. Ef þeir hafa samið um lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein þá skulu menn inn í viðkomandi lífeyrissjóði og skiptir ekki máli hvort fyrirtækið er í Vinnuveitendasambandinu eða launþeginn í verkalýðsfélagi. Þarna er sem sagt verið að skylda aðila A og aðila B inn í lífeyrissjóð sem þeir eiga engan þátt í. (Gripið fram í: Og af hverju er verið að því?) Það er, hv. þm., vegna valdabaráttunnar. Vegna þess að þetta hefur verið svona frá lögunum 1974, þar sem ,,öllum launþegum er rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps.`` Það hefur gefið mönnum þessi völd og menn vilja halda í þetta ákvæði nánast óbreytt og um það snýst málið. Þetta er heila málið. Það er þessi 2. gr., um hana snýst allt heila málið.

Eins og hv. þm. hafa eflaust heyrt er ég ekki hrifinn af þessu ákvæði og ég efast um að ég muni ljá því atkvæði mitt. En það eru ókostir við fleiri atriði. Það eru í fyrsta lagi þau atriði sem ekki eru nefnd og það er stjórnunin. Ekki er talað um stjórnunina í frv. Í 30. gr. stendur reyndar, með leyfi forseta:

,,Fyrir lok júní hvert ár skal stjórn lífeyrissjóðs boða til ársfundar sjóðsins. Allir sjóðfélagar eiga rétt til fundarsetu á ársfundinum með umræðu- og tillögurétti.`` Aldeilis réttindi. Þeir mega ræða þetta og þeir mega meira að segja koma með tillögu en atkvæðisréttur skal vera í samræmi við samþykktir hlutaðeigandi lífeyrissjóðs. Og þá munu menn uppgötva það undarlega fyrirbæri, eins og menn voru að skrifa um í blöðunum fyrir stuttu, að þeir mæta á ársfund og þar eru málin rædd, svo draga sig einhverjir herrar til baka og kjósa stjórn --- einhverjir fulltrúar stéttarfélagsins kjósa stjórn, og fulltrúar vinnuveitenda á fundinum tilkynna hverjir vinnuveitendurnir hafi ákveðið að skuli vera í stjórn. Þetta er lýðræðið.

Ég mun flytja brtt. um þetta, eins og ég gerði síðasta vor, þ.e. að sjóðfélagarnir kjósi sér stjórn --- bara með lýðræðislegri kosningu. Mér þætti gaman að sjá þá hv. þm. sem hafa á móti því.

[15:45]

Það sem vantar einnig í frv., og ekki er rætt, er samspil við almannatryggingar. Menn hafa komið hér inn á þær skerðingar sem þar er um að ræða. Það sem vantar inn í það kerfi allt saman er að gert sé ráð fyrir því að menn hafi borgað í lífeyrissjóð frá 1980, eftir að skyldað var, ekki bara launþegar heldur allir, sjálfstæðir atvinnurekendur líka. Auðvitað á að reikna með því að menn hafi borgað í lífeyrissjóð og ákvarða mönnum lífeyri eins og þeir hefðu borgað í lífeyrissjóð og það kæmi þá til frádráttar lífeyri frá almannatryggingum. Og gera ráð fyrir að menn hafi farið að lögum ef þetta yrði gert. Þá er allur þessi vandi sem menn eru að tala um, skerðingar hjá almannatryggingum og allt það --- að sjálfsögðu dottinn upp fyrir. (KÁ: Og á hverju á fólk að lifa?) Menn áttu að leggja fyrir og svo hefur fólk auk þess félagslega hjálp sveitarfélaganna. (Gripið fram í.) Því er vísað yfir á ríkisvaldið núna.

En það sem vantar líka, og það er fjórða atriðið, er að skilgreina hver á allt þetta fé. Í lífeyrissjóðunum eru núna, eins og ég gat um áðan, 317 milljarðar og enginn veit hver á þá. (SvG: Einar Oddur veit það.) Ég mun flytja brtt. um það að lýst verði yfir að þetta fé sé eign sjóðfélaganna og engra annarra. Vegna þess að þeir einir eiga réttindin sem eru í þessum lífeyrissjóðum og ég ætla ekki að endurtaka umræðuna frá síðasta ári um húsbóndaréttinn og hvernig hann hvarf, um húsbóndaskylduna og hvernig sú skylda hvarf með lagasetningunni 1974, og vísa til umræðunnar í fyrra.

Í þessu frv. er margt ágætt eins og ég gat um áðan og ber að nefna það sem ég hef ekki nefnt enn þá og það er skipting réttinda á milli hjóna og sambúðarfólks sem er af hinu góða. Ég tel því að mjög margt sé jákvætt í þessu. En nokkur atriði vantar, eins og ég gat um, og ég mun flytja brtt. þar um. Einnig hef ég fyrirvara um 2. gr.

Herra forseti. Ég má til með að tala um afstöðu þeirra tveggja stjórnarandstæðinga sem hér hafa tekið til máls. Hv. þm. Ágúst Einarsson sagði: Aðilar vinnumarkaðarins höfðu sitt fram. Gegn hverjum höfðu aðilar vinnumarkaðarins sitt fram? (Gripið fram í: Gegn ríkisstjórninni.) Gegn meiri hluta Alþingis. Gegn 40 þingmönnum á Alþingi. Hvað er hv. þm. eiginlega að segja? Vilji kjósenda, sem kemur fram í valdahlutföllum á Alþingi, skal sko ekki ráða heldur eru það aðilar vinnumarkaðarins sem höfðu sitt fram og þingmaðurinn hlakkar yfir því og finnst það ágætt mál. Ég er nú frekar dapur yfir því. Ég hef margoft bent á að því miður sé öll veigameiri lagasetning frá hinu háa Alþingi ákvörðuð utan Alþingis. Það er nánast engin lagasetning, sem þingmenn hafa samið sjálfir, samþykkt. Á einhverjum tíma hefur Alþingi framselt völdin til aðila utan Alþingis og ég efast um að þeir hafi mátt það. Ég efast um að stjórnarskráin leyfi slíkt valdaframsal eins og kemur fram í þessu frv. sem aðilar vinnumarkaðarins eru búnir að breyta í sína þágu í sumar og stjórnarandstaðan tekur undir fagnandi.

Ég held að hv. þm. Ágúst Einarsson hafi líka verið að tala um griðunga sem sæktu í hið mikla fé. Hvernig er það, hvaða griðungar eru í þessu fé núna? Hver er það sem fer núna með þetta fé? Er það fólk sem er kosið af eigendum fjárins? (Gripið fram í: ASÍ.) Einmitt, það er hárrétt hjá hv. þm., það eru aðilar vinnumarkaðarins sem ákvarða stjórnir þessara lífeyrissjóða og fara með þetta feiknamikla fé. (Gripið fram í: Og eru þeir griðungar?) Það skyldi nú ekki vera að þeir séu griðungar --- já, og kannski ekki verri og ekki betri en þeir griðungar sem hv. þm. óttaðist eða sagði að sæktust í þetta.

Hv. þm. Svavar Gestsson sagði: Samningum verður ekki breytt. Hvað var hv. þm. að segja? Hann var að segja það að löggjafarsamkunda þjóðarinnar hefði ekki áhrif. Hún hefði ekki um lagafrv. að segja. Ég bara spyr: Til hvers er Alþingi eiginlega ef samningum verður ekki breytt? Ef meiri hluti alþingismanna ákveður að breyta þessu lagafrv. þá gera þeir það, og það verður að lögum. Svo er fyrir mælt í stjórnarskránni.

Herra forseti. Þetta frv. er að mörgu leyti nauðsynlegt og þarft. Það er svo nauðsynlegt að ég mun styðja það þrátt fyrir þá miklu vankanta sem eru á því í 2. gr. Ég mun flytja brtt., sem ég vænti að hv. þm. muni samþykkja, varðandi eign lífeyrissjóðanna og annað varðandi kosningu stjórna lífeyrissjóðanna, að það verði sjóðfélagar sem kjósi stjórnir lífeyrissjóðanna og hafi bein áhrif á stjórnirnar. Það hefur ekki tekist sem skyldi að auka valfrelsi í lífeyrissjóðunum, þ.e menn geta ekki farið úr lífeyrissjóðnum sínum ef þeim líkar illa við ráðstöfun fjárins. Það hefur ekki tekist vegna 2. gr. og áhrifa verkalýðshreyfingarinnar og þá er enn þá brýnna, fyrst ekki má kjósa með fótunum að kosið verði með höndunum.