Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 15:56:16 (1353)

1997-11-18 15:56:16# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[15:56]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hv. þm. hvort honum sé ekki ljóst hverjir eru fjölmennastir í þeim hópi sem ekki hafa greitt í lífeyrissjóði. Heldur hv. þm. að það séu verðbréfaeigendur og þeir sem hafa verið að fjárfesta í atvinnulífinu og í sparibréfum og öðru slíku? Það eru fyrst og fremst konur. Konur eru langsamlega stærsti hópurinn. Konur sem voru í hálfri vinnu eða unnu ekki utan heimilis. Þær eru langsamlega stærsti hópurinn sem fær greiðslur frá almannatryggingum. Og sem betur fer, hv. þm., þá mun draga úr því jafnt og þétt, eftir því sem sá hópur kemur inn sem hefur unnið meira og minna fullan vinnudag og greitt í lífeyrissjóði. Þannig að þetta vandamál verður sem betur fer bráðum meira og minna úr sögunni. Ég veit heldur ekki betur en að búið sé með lögum að eignatengja og tekjutengja, að vísu koma fjármagnseignir að takmörkuðu leyti til skerðingar, en það er þó búið að tengja þarna nokkuð og mætti kannski ganga lengra í því hjá þeim sem hafa miklar tekjur af eignum sínum. Þarna hefur löggjafinn gripið inn í og mér finnst að þingmaðurinn þyrfti að kynna sér þetta betur. Honum verður mjög starsýnt á eigendur verðbréfa og hann þekkir vel til í viðskiptaheiminum en þetta er nú, held ég, og ég veit reyndar að þetta er miklu minni hópur heldur en t.d. konur sem ekki unnu utan heimilis.