Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 15:58:20 (1354)

1997-11-18 15:58:20# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[15:58]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Frá árinu 1974, eftir að Alþingi ákveður að allt vinnandi fólk skuli borga í lífeyrissjóð, þá eru þeir sem ættu heima í almannatryggingakerfinu, í mínum huga, fólkið sem er tekjulaust, það eru konur, sem í sífellt minna mæli eru eingöngu heima, það eru fangar, það eru sjúklingar, öryrkjar og aðrir slíkir sem eru ekki á vinnumarkaði og eru ekki þar af leiðandi skyldaðir til að borga í lífeyrissjóð. Það eru slíkir aðilar sem eiga að fá bætur frá almannatryggingum núorðið en engir aðrir. Það sem ég vil hreinlega gera ráð fyrir er að allir sem hafa haft tekjur hafi öðlast lífeyrisréttindi út á þær tekjur en hinir sem voru tekjulausir fái að sjálfsögðu lífeyri frá almannatryggingum eins og er í dag. En ekki að maður eða kona sem hefur komið sér hjá því að borga í lífeyrissjóð geti fengið óskertan lífeyri frá almannatryggingum og jafnvel gengið á eignir á sama tíma.