Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 16:02:08 (1356)

1997-11-18 16:02:08# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[16:02]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf að endurtaka enn einu sinni að sú mikla aðildaraukning sem varð í lífeyrissjóðunum varð ekki 1969. Hún varð 1974 þegar stjórnir og starfsmenn lífeyrissjóðanna gátu sent lögfræðinga inn í fyrirtæki til að innheimta iðgjöld af fólki sem ekki var í stéttarfélögum, hjá þeim fyrirtækjum sem ekki voru í Vinnuveitendasambandinu. Þá varð mikil aukning á félagatölunni með aðstoð löggjafans. Þar sem löggjafinn hefur komið þessu kerfi á með þessum hætti og valdið þessari gífurlega miklu uppsöfnun fjármagns, þá er að sjálfsögðu eðlilegt að löggjafinn gæti hagsmuna þeirra sem hann er að skylda til að borga í lífeyrissjóð.

Stjórnlyndi mitt sem hv. þm. gat um er nú ekki meira en það að ég ætla að leyfa blessuðu fólkinu, sjóðfélögunum í lífeyrissjóðunum, að kjósa sér stjórn, nema hvað? Hver skyldi eiga að kjósa stjórn til að fara með fjöregg þessa fólks sem er ellilífeyririnn? Hver skyldi eiga að ráðskast með það fé sem þetta fólk er svo gífurlega háð í ellinni, hvernig fjárfest er, í hvaða hlutabréfum keypt er, hverjir eru í stjórn o.s.frv.? Hver skyldi eiga með það að gera aðrir en sjóðfélagarnir sjálfir? Það er nú allt stjórnlyndið hjá mér þannig að ég vísa bara til þess að Alþingi setti lögin 1974 og 1980 sem skylduðu alla vinnandi Íslendinga til að borga í lífeyrissjóð. Og mér finnst mjög eðlilegt að í kjölfarið fylgi að Alþingi ákvarði að það fólk sem er skyldað til að borga í lífeyrissjóð hafi eitthvað um það að segja hvernig farið er með fjármuni þess.