Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 16:04:04 (1357)

1997-11-18 16:04:04# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[16:04]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Vandinn með hv. þm. er sá að hann vill svipta verkalýðshreyfinguna samningsrétti. Hann vill banna verkalýðshreyfingunni að semja við atvinnurekendur í landinu um fyrirkomulag á stjórnun sjóða eins og þeirra sem hér er um að ræða, lífeyrissjóðanna. Það er alveg ofboðslegt að svona seint á þessari öld skuli koma upp raddir á Alþingi sem heimta að verkalýðshreyfingin verði svipt samningsfrelsi, en það er hv. þm. að segja og ekkert annað af því að hann vill ekki sætta sig við hina samningsbundnu eðlilegu niðurstöðu sem verður til úti á hinum almenna vinnumarkaði í landinu. Af því að þetta frv. eins og það liggur fyrir núna er samningur. Þannig er það.

Auðvitað hefur aftur og aftur komið fyrir að þessi virðulega stofnun hefur fallist á slíkar niðurstöður sem hafa orkað tvímælis. En menn hafa þó gert það m.a. í nafni almennra aðstæðna, t.d. í efnahagslífinu á hverjum tíma.

Varðandi svo það sem hann tönnlast á aftur og aftur að þetta hafi ekki gerst nema vegna þess að það voru sett lög 1974. Af hverju voru lögin um starfskjör launafólks sett? Hver var þá félmrh.? Ætli það hafi verið Hannibal Valdimarsson eða ætli það hafi verið Björn Jónsson? Úr hvaða starfi komu þeir í félmrn.? Báðir höfðu áður verið forsetar Alþýðusambandsins og af hverju fluttu þeir frumvörp um þetta mál? Af því að þeir höfðu gert um það samning við Vinnuveitendasamband Íslands þannig að hér var um það að ræða að gerður var samningur um þessa hluti. Og hv. þm. þolir ekki að hér er Alþingi að burðast við að reyna að standa við samninga sem eru gerðir úti í þjóðfélaginu.