Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 16:26:12 (1365)

1997-11-18 16:26:12# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[16:26]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Þetta frv. sem nú liggur fyrir er sannarlega fagnaðarefni. Á fyrra þingi þegar samsvarandi frv. var lagt fram kom fram mikil gagnrýni úti í þjóðfélaginu, sérstaklega frá þeim sem höfðu rekið og staðið fyrir séreignarlífeyrissjóðum. Þeim þótti með þeirri gerð frv. sem var lögð fram þá að mjög væri að sér vegið og tilveru sinni allri. Um þetta urðu þó nokkrar deilur á síðasta þingi eins og hv. þm. muna eflaust. Um það var að ræða að reyna að varðveita þann viðbótarsparnað sem sannarlega á sér stað með séreignarlífeyrissjóðunum án þess að skerða hina almennu lífeyrissjóði og án þess að skerða þá samhjálp sem þeir hafa sem grundvallaratriði.

Ég tel að með því frv. sem nú liggur fyrir hafi tekist mjög mikilvæg sátt. Vegna þess að það sem veikast er í okkar efnahagslífi er sparnaðurinn og allt sem við getum bætt þar við er af hinu góða. Meginsparnaðurinn í þjóðfélaginu er í lífeyrissjóðunum og allt sem við getum bætt við hann, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. að geti átt sér stað, er af hinu góða. Við skulum fagna því og standa vel að því.

Það er nú svo með þessa lífeyrissjóði að þeir voru í upphafi og eru enn þá hluti af kjarasamningum. Það var eðlilegt að aðilar vinnumarkaðarins, eftir að þeir höfðu verið í gangi í fjögur til fimm ár, bæðu um lögfestingu lífeyrissjóðanna til að tryggja að allir tækju þátt í þessum sameiginlega sparnaði vegna þess að lífeyrissjóðirnir eru náttúrlega fyrst og fremst tæki okkar til að koma í veg fyrir skattlagningu í framtíðinni. Alþjóðlegar stofnanir sem hafa skoðað Ísland og íslensk efnahagsmál og velt fyrir sér hvernig staða okkar er í heilbrigðismálum og efnahagsmálum hafa einmitt borið mikið lof á þessa skipan okkar. Mér er kunnugt um að t.d. danski vinnumarkaðurinn, bæði verkalýðsarmurinn og atvinnurekendur, hafa mjög hin síðari ár verið að kynna sér hið íslenska fyrirkomulag til að taka upp slíkt í Danmörku. Þeir hafa talið það svo til fyrirmyndar.

Við getum því verið mjög stolt af því kerfi sem er í gangi á Íslandi og það er mjög gott til þess að vita ef okkur tekst að koma á löggjöf sem sátt er um, sem verður til að styrkja þetta enn þá frekar.

Við vitum af íslenskum peningamarkaði að bankar á Íslandi eru taldir þeir dýrustu í Vestur-Evrópu. Hins vegar er rekstur lífeyrissjóðanna á Íslandi sá ódýrasti sem þekkist. Við höfum því enga ástæðu til að efast um þessa sjóði. Sú sátt sem hér á sér stað og getið er um í þessu frv. og frv. er byggt á, er mjög mikilvæg. Mjög margvísleg atriði koma þar fram sem ég ætla ekki að rekja. Þó er sérstök ástæða til að tala um réttindi hjóna. Einn af frumkvöðlum og baráttumönnum lífeyrissjóðanna, Guðmundur H. Garðarsson fyrrv. þingmaður, var oft með þetta mál á þingi í mörg ár, þ.e. að reyna að bæta réttarstöðu hjóna í lífeyrismálum. Nú virðist þetta baráttumál hans vera í höfn með þeirri skipan sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Ég tel, herra forseti, að rétt sé að segja úr þessum ræðustól að nefndin sem var skipuð í vor til að fara yfir þessi mál og freista þess að ná um þau víðtæku samkomulagi hefur unnið mjög merkt og gott starf. Ég held að það fari ekkert milli mála að formaður nefndarinnar og formaður efh.- og viðskn., hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, á mjög mikla þökk fyrir að svo giftusamlega tókst til. Það hefðu orðið mikil vandræði fyrir okkur öll, fyrir þingið og þjóðina alla, ef miklar deilur hefðu komið upp um svo viðkvæm mál sem lífeyrissjóðsmálin eru. Það er mikil þörf á því að um þau sé sæmileg sátt og friður.

Ég tel rétt að geta þess út af ummælum hv. þm. Svavars Gestssonar að það er alveg víst að stjórnarflokkarnir styðja þetta frv. af mikilli einurð. Þó einn og einn maður kunni að hafa einhver sérsjónarmið þá breytir það engu þar um að þetta frv. verður stutt.