Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 16:39:01 (1367)

1997-11-18 16:39:01# 122. lþ. 27.3 fundur 42. mál: #A framhaldsskólar# (innritunar- og efnisgjöld) frv., Flm. SJóh (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[16:39]

Flm. (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér frv. til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 80/1996, með síðari breytingum. Flm. ásamt mér er hv. þm. Svavar Gestsson.

Í frv. er lagt til að 2. og 3. mgr. 7. gr. laganna falli brott og í öðru lagi að lögin öðlist þegar gildi.

Í greinargerð með frv. stendur:

,,Með frumvarpi þessu er lagt til að 2. og 3. mgr. 7. gr. laga um framhaldsskóla falli brott. Í 2. mgr. 7. gr. er kveðið á um að skólanefnd ákveði upphæð innritunar- og efnisgjalda sem nemendum er gert að greiða við upphaf hverrar námsannar eða skólaárs. Er annars vegar um að ræða innritunargjald, sem er þjónustugjald vegna kostnaðar við kennsluefni og pappír, og hins vegar efnisgjald sem innheimt er af nemendum sem njóta verklegrar kennslu vegna efniskostnaðar við efni sem skólinn lætur nemendunum í té. Er kveðið á um það í núgildandi lögum að innritunargjald megi aldrei vera hærra en 6.000 kr. á skólaári, en efnisgjald aldrei hærra en 12.500 kr. á önn.

Í 3. mgr. 7. gr. er að finna reglur um sérstakt endurinnritunargjald sem framhaldsskólum er heimilt að innheimta af nemendum sem endurinnritast í bekkjardeild eða áfanga og gera lögin ráð fyrir því að upphæð gjaldsins miðist við 500 kr. fyrir hverja ólokna einingu á síðustu önn.

Í frumvarpi þessu er þó gert ráð fyrir að ákvæði síðari málsgreinar 10. gr. haldi gildi sínu, en þar er fjallað um gjöld til nemendasjóða.``

Þegar ný framhaldsskólalög voru samþykkt vorið 1996, voru lögfest innritunargjöld í framhaldsskóla en þau voru ætluð til að standa straum af kostnaði vegna kennsluefnis og pappírs sem skólinn lætur nemendum í té án sérstakst endurgjalds og nauðsynlegt er fyrir starfsemi skólans. Í lögunum var tiltekið að upphæðin mætti aldrei fara yfir 6.000 kr. á önn, þ.e. 12.000 kr. á ári. Þegar lögin voru sett var þessu ákvæði ákaft mótmælt hér í þingsölum og talið að það stríddi gegn jafnrétti til náms. Ekki geta öll ungmenni fengið hjálp frá foreldrum en heimilin á Íslandi standa mörg illa eins og hér hefur verið rætt. Það er t.d. einsýnt að erfitt er fyrir meðalsauðfjárbónda sem hefur samkvæmt nýjustu upplýsingum um 600--700 þús. kr. í árstekjur að kosta börn sín til náms. Því miður eru margir foreldrar nú í góðærinu sem búa við slík kjör svo ótrúlegt sem það kann að vera ef miðað er við þann velmegunarsöng sem ráðamenn þjóðarinnar kyrja nú með viðlaginu hagvöxtur og kaupmáttaraukning. Ástæðulaust er að mismuna ungmennum eftir efnahag heimila með slíkum flötum skólagjöldum sem eru mjög íþyngjandi fyrir tekjulág heimili þó þau efnameiri finni lítt fyrir þeim. En því miður er það svo að í mörgum tilfellum hafa ungmenni á þessum aldri mjög litlar sumartekjur svo oftast munu það vera foreldrarnir sem þurfa að reiða gjöldin fram.

Hæstv. menntmrh. er hins vegar aðdáandi skólagjalda og nægir í því efni að benda á nýlega grein um skólagjöld í háskóla sem hann birti á internetinu enda er gert ráð fyrir því í nýju frv. til háskólalaga sem liggur fyrir Alþingi að skólinn geti lagt aukin gjöld á nemendur til að mæta útgjöldum. Þótti nú ýmsum að nóg væri að gert í skólagjaldainnheimtu í þeirri stofnun.

Aðeins rúm 50% af hverjum árgangi á Íslandi ljúka einhvers konar framhaldsnámi og aukið atvinnuleysi ungs fólks er vaxandi vandamál. Ráðamenn eru alltaf að lýsa því yfir að menntun þjóðarinnar sé besta fjárfesting okkar til nýrrar aldar. Hvers vegna þá að lögfesta alls konar hremmingar yfir ungt fólk sem er að reyna að stunda framhaldsskólanám, að gera því erfitt fyrir og jafnvel hrekja úr skólanámi? Eitt það versta sem hæstv. ríkisstjórn lét sér detta í hug í fyrra var að leggja til, í tengslum við ráðstafanir í ríkisfjármálum, að tekin yrðu upp svokölluð endurinnritunargjöld, öðru nafni fallskattar. Þetta átti að gera að sérstakri tekjulind fyrir framhaldsskólana í þeim hremmingum sem þeir gengu í gegnum í einum niðurskurðarfaraldrinum en þá var meiningin að lækka framlög til þeirra um 200 milljónir. Að vísu var hörfað með 40 millj. af því samkvæmt þeirri sérstöku hernaðarkúnst sem hæstv. ríkisstjórn hefur tileinkað sér eins og dæmin sanna. Heilar 32 millj. kr. ráðgerði hæstv. ríkisstjórn þannig að hafa í tekjur vegna ungmenna sem lentu í erfiðleikum í námi. Er það einhver ógeðfeldasta tekjuöflunarleið sem sögur fara af. Hæstv. menntmrh. hefur lýst þessari skattlagningu sem leið til að bæta skipulag og auka samkeppni.

[16:45]

Að vísu rétt er að það er að því óhagræði við skipulag skólastarfs ef nemendur innrita sig í greinar sem þeir síðan hætta í í miðjum klíðum. En á því þarf að taka með aukinni námsráðgjöf og stuðningi við þá sem lenda í námserfiðleikum en ekki slíkum niðurlægjandi refsiaðgerðum sem fallskatturinn er. Ýmislegt getur búið að baki lélegu gengi í námi svo sem tilfinningar og félagslegar aðstæður sem taka þarf markvisst á af fagfólki. Auknar álögur á námsörðugleika koma verst við þá er síst skyldi og eru síst fallnar til að koma í veg fyrir það mikla brottfall út framhaldsskólum sem vissulega er mikið vandamál hér á landi.

Í svari menntmrh. við fyrirspurn hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur um innheimtu endurinnritunargjalds kom fram að af þeim 32 millj. sem hæstv. ráðherra ætlaði að hafa upp úr innheimtu endurinnritunargjalda á síðasta ári hafa nú í október aðeins innheimst rúmar 6 millj. svo fallskatturinn ætlar ekki að reynast sú tekjulind sem ráðgert var í fyrra, hverjar sem ástæðurnar eru og er það vel.

Enn er ónefndur hér einn þátturinn af þessum sérstöku sköttum sem lagðir eru á nemendur í framhaldsskólum en það eru efnisgjöldin sem voru sett inn í lögin á sl. hausti, að því er sagt var hér, vegna sérstakrar beiðni frá skólastjórum framhaldskóla. Ég trúi því nú tæplega að þeir hafi verið mjög margir sem fóru fram á þetta. En staðreyndin er sú að þetta var sett inn í lög frá Alþingi og eru nú innheimt efnisgjöld, oft jafnaðargjöld, af öllum nemendum sem stunda einhvers konar fagnám í framhaldsskólum. Þessi gjöld hafa ekki komið í veg fyrir að jafnframt séu innheimtar háar upphæðir af nemendum í ákveðnum greinum. Ég er hér t.d. með reikning frá einum nemanda sem var að byrja í hárgreiðslu og þurfti að borga 40 þús. kr fyrir sérstaka kistu, sem er skilyrði að eiga til að geta stundað nám í því fagi. Auk þess þurfti hann að sjálfsögðu að borga efnisgjöld og innritunargjöld í skólann.

Ég verð að segja að mér finnst að það þurfi að athuga þessi mál miklu nánar. Það er ekki sæmandi, þegar mjög áríðandi er að við aukum hlutfall íslenskra nema sem ljúka prófum úr framhaldsskólum, að við séum að setja íþyngjandi skatta á framhaldsskólanema sem hugsanlega gætu valdið því að einhverjir þeirra yrðu að hætta námi.

Ég legg svo til, að lokinni þessari umræðu, að frv. verði vísað til hv. menntmn.