Almannatryggingar

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 17:34:16 (1371)

1997-11-18 17:34:16# 122. lþ. 27.4 fundur 43. mál: #A almannatryggingar# (slysatrygging sjómanna) frv., Flm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[17:34]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég hefði nú haldið að hv. þm. Guðrún Helgadóttir hefði talað hér af meiri þekkingu og reynslu með það í huga að hv. þm. var upplýsingafulltrúi Tryggingastofnunar ríkisins í mörg ár.

Þingmaðurinn byrjaði á því að tala um það að frv. þetta sé nánast staðlausir stafir. Málið er að þetta frv. hef ég borið undir lögfræðinga Tryggingastofnunar. Þeir telja að með því orðalagi sem þar er séu aðilar þeir, þ.e. íslenskir farmenn á erlendum skipum, komnir undir tryggingavernd Tryggingastofnunar ríkisins. Í máli sínu um erlendar áhafnir á skipum í þjónustu íslenskrar útgerðar er það svo að á öllum skipum sem þessar útgerðir hafa í þjónustu sinni er a.m.k. einn íslenskur farmaður og það er svokallaður ,,supercargo``, sá sem gegnir því starfi að fylgjast með lestun og losun vöru í viðkomandi skip.

Í annan stað eru til margs konar leigusamningar sem snerta kaupskip. Það eru til svokallaðir þurrleigusamningar, þ.e. þá er skipið tekið á leigu af hálfu íslenskrar kaupskipaútgerðar án áhafnar. Eins er til að áhöfnin sé blönduð. Þingmaðurinn talaði sífellt um að erlend dótturfyrirtæki væru með þessi skip. Ég kannast ekki við það. Gott væri að fá það gefið upp hvaða dótturfyrirtæki Eimskipafélagsins og Samskipa eru með þessi erlendu skip. Hvaða fyrirtæki eru það? Það væri gott fyrir íslenska farmannastétt að fá það uppgefið. Þingmaðurinn virðist vita meira um það heldur en fulltrúar farmanna hér á landi, bæði Farmannasambandsins, Vélstjórafélagsins og Sjómannasambandsins. Málið er það að á sumum skipum eru yfirmenn erlendir, hásetar íslenskir eða hvort tveggja hluti háseta íslenskir og hluti yfirmanna íslenskir. Það er þekkt fyrirbrigði og viðurkennt af Alþjóðaflutningaverkamannasambandinu að þar sem skip sigla undir svokölluðum hentifána sé hluti áhafnar undir samningum Alþjóðaflutningaverkamannasambandsins og hluti áhafnar undir þeim kjarasamningum sem þeir viðurkenna þó að þeir séu hinir eiginlegu kjarasamningar ITF eða Alþjóðaflutningaverkamannasambandsins og bendi ég á það sem oft hefur komið upp varðandi þau skip sem Eimskip og Samskip hafa verið með á leigu. Nýlegt dæmi hjá Samskipum er að á einu skipi hafa hásetar verið undir dönskum kjarasamningum. En sjómannasamtökin hér hafa verið að vinna að því að þessir aðilar, þessi hluti áhafnarinnar verði undir íslenskum kjarasamningum. Við það er ekkert að athuga vegna þess að þetta er nánast alþjóðlegt vinnuumhverfi, eitt kaupskip svo víða sem það kemur við, í fjölbreytilegum flutningum og jafnvel með blandaða áhöfn margra þjóða.

Það sem hér er verið að gera, svo menn átti sig nú á því, er að með tilvísun til þess sem áður hefur gerst, bæði hvað varðar sjómannaafsláttinn og þau lög sem breytt var vegna réttar til töku ellilífeyris frá 60 ára aldri. Þar var miðað við lögskráningu í tiltekinn tíma á íslenskt skip eða skip sem gert er út af íslenskum aðilum. Þau skip sem hér er verið að fjalla um eru flest gerð út af Íslendingum. Þar eru þó undantekningar á, skip sem koma hér og lesta t.d. mjöl eða lýsi og eru kannski bara í leigu í þeirri einu ferð að ströndum landsins til að versla eins og ég gat hér um áðan. Þannig að þegar hv. þm. Guðrún Helgadóttir talar um að í þessu frv. séu staðlausir stafir og hún hafi mikla samúð með þeim sjálfstæðismönnum sem flytja þetta frv., þá höfðar hún til máltilfinningarinnar en ekki skynseminnar en það er hennar mál. En það sem fyrst og fremst er verið að leggja til er að Íslendingar um borð í skipum sem gerð eru út af íslenskum aðilum, njóti sama réttar og íslenskir launþegar, enda þiggja þeir laun sem samið er um á grundvelli íslenskra kjarasamninga.

Varðandi það sem hún kom hér inn á í sambandi við skattamálin þá geri ég mér það alveg ljóst --- en ég er ansi hræddur um það hins vegar að það séu margir sem ekki átta sig á þeim ákvæðum laganna --- að á þetta er ekki litið sem gjald heldur er það tengt tryggingagjaldi og slysatryggingu óbeint, þ.e. tryggingagjaldið sem slíkt er iðgjald af slysatryggingu. En þetta er skilgreint sem skattur og ég held að margir hafi feilað sig á því.

Að lokum, herra forseti, hér er verið að flytja frv. um það, fyrst og fremst, að tryggja íslenskum farmönnum eða íslenskum sjómönnum á skipum undir erlendum fána sem eru í leigusiglingum fyrir íslenskar kaupskipaútgerðir, sama rétt og farmönnum á íslenskum kaupskipum.