Goethe-stofnunin í Reykjavík

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 18:20:09 (1380)

1997-11-18 18:20:09# 122. lþ. 27.10 fundur 256. mál: #A Goethe-stofnunin í Reykjavík# þál., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[18:20]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. sem hafa talað um málið og stutt tillöguna. Hv. síðasti ræðumaður er einn af meðflutningsmönnum hennar, annar á skrá yfir meðflytjendur. Ég tel það mjög mikilvægt sem kom fram í máli þeirra beggja sem töluðu á eftir mér að málið fái góðan framgang í þinginu og ég er raunar sannfærður um að svo verði í ljósi þess hversu víðtæk samstaða er um málið.

Mér láðist að geta þess í framsögu, sem vert er að leggja áherslu á, að það er ekki aðeins hér á Íslandi sem áhyggjur hafa komið fram um þetta efni. Eins og tekið er fram í greinargerð með tillögunni var þingmannasendinefnd frá Bundestag í heimsókn um miðjan októbermánuð og kynnti sér m.a. þau mál sem þá voru komin á dagskrá. Hún sendi fréttatilkynningu frá sér 16. okt. sl. og þar komu mjög eindregin sjónarmið fram þar sem ákvörðunin var gagnrýnd og þeim viðbrögðum lýst sem sendinefndin hafði orðið vör við hér á Íslandi að því er varðaði fyrirhugaða ákvörðun um lokun stofnunarinnar. Af þingmannanna hálfu var boðað að þeir mundu reyna að beita sér innan þingsins til þess að fá þessa ákvörðun endurskoðaða. Þarna var um að ræða þingmenn frá mörgum þingflokkunum í Bundestag, stærstu flokkunum, og undir formennsku Angelika Beer þingmanns frá Græningjum, sem veitir forstöðu þeirri nefnd sem fer með samskipti við skandinavísku ríkin. Í henni eru nú ekki færri en um 115 skráðir þingmenn, sem þátttakendur í þeim hópi, og hafa þeir vafalaust fengið vitneskju um stöðu mála.

Ég ítreka þakkir mínar og jafnframt vonir um að málið komi tiltölulega fljótt á ný til þingsins að lokinni athugun hv. utanrmn. þannig að vilji okkar í þessum efnum liggi skýrt fyrir.