Takmörkun á hrossabeit og fjölda hrossa

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 18:23:07 (1381)

1997-11-18 18:23:07# 122. lþ. 27.5 fundur 51. mál: #A takmörkun á hrossabeit og fjölda hrossa# þál., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[18:23]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um takmörkun á hrossabeit og fjölda hrossa. Hér er um endurflutning á máli að ræða frá síðasta þingi, og er því rétt að vísa í rétt mál, þetta er 51. mál þingsins.

Tillagan var flutt tiltölulega seint á þinginu en fékk þó nokkra umfjöllun. Efni tillögunnar er óbreytt frá því sem var á síðasta þingi og ég leyfi mér að lesa tillögutextann sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra, að höfðu samráði við umhverfisráðherra, að móta tillögur um aðgerðir og nauðsynlegar lagabætur til að takmarka fjölda hrossa og hrossabeit í úthaga með tilliti til jarðvegsverndar og hóflegrar nýtingar gróðurlendis. Tillögurnar verði kynntar Alþingi á haustþingi 1998.`` Þessari dagsetningu var eðlilega nokkuð breytt frá því sem var á síðasta þingi þar sem tillagan er endurflutt nú.

Það efni, sem hér er á ferðinni, er afar brýnt að mati flutningsmanns og ég vil að það komi fram að viðbrögð við tillögunni voru óvenjumikil og báru vott um að mörgum er ljóst í hvað stefnir í málinu og hversu brýnt er að á því verði tekið. Ég vil leyfa mér að vitna til fáeinna viðbragða sem komu m.a. fram í umsögnum til hæstv. landbn. þingsins. Umhvn. fjallaði um málið og var einhuga í að beina því til landbn. sem leitaði álits umhvn. um tillöguna. Í umsögn frá 2. maí segir: ,,Nefndin tekur undir nauðsyn þess að leitað sé leiða til að takmarka fjölda hrossa og fyrirbyggja landskemmdir af völdum hrossabeitar.`` Þarna var um eindreginn stuðning að ræða og Landssamband hestamannafélaga sendi umsögn 30. apríl 1997 til landbn. Alþingis. Hún er stutt og ég leyfi mér að lesa hana, með leyfi forseta:

,,Stjórn Landssambands hestamanna hefur rætt tillöguna og telur rétt að gera úttekt, könnun á stöðu mála, m.a. að leggja mat á stöðuna í markaðsmálum. Stjórnin telur efnislega rétt að úttektin sé gerð á vegum landbúnaðar- og umhverfisráðuneyta.`` Þetta var umsögn frá Landssambandi hestamannafélaga.

Skógrækt ríkisins sendi umsögn 30. apríl 1997 til Alþingis og mælir með að þáltill. verði samþykkt. Sama sjónarmið kom fram hjá Búnaðarsambandi Vestfjarða sem sendi umsögn um tillöguna og frá Landgræðslu ríkisins var tekið undir nauðsyn þess að fjalla um leiðir til að takmarka fjölgun hrossa og fyrirbyggja landskemmdir af völdum hrossabeitar ásamt nokkrum ábendingum.

Frá Bændasamtökum Íslands kom allítarleg umsögn þar sem er að finna stuðning við frekari úttekt á málinu en vísað til þess að e.t.v. sé ekki þörf á beinum lagabreytingum til þess að ná árangri í þessu. Umsögnin er frá 2. maí og ég les hana ekki í heild sinni en leyfi mér að nefna þessi áhersluatriði úr umsögninni. Það gerðist raunar rétt eftir að tillagan kom fram að dagblaðið Dagur--Tíminn leitaði til nokkurra valinkunnra manna eftir áliti á þessu, þar á meðal til formanns Bændasamtaka Íslands. Þetta er 9. apríl 1997 og ég leyfi mér að vitna til viðbragða sem þar komu fram hjá Ara Teitssyni, með leyfi forseta: ,,Ég er sammála því að fækka beri hrossum sem enginn arður er af. Þar á ég við hross sem hvorki eru nýtt til reiðmennsku né kjötframleiðslu. Þeim þarf að fækka. Menn eru að átta sig á því að slík hross hafa slæm áhrif á viðhorf til hrossaræktar og hestamennsku og ekki síður á umræðu um meðferð og nýtingu á landi.``

Frá Sigurbirni Bárðarsyni hestamanni komu svipuð viðhorf fram. Ég leyfi mér að vitna í örstutt svar við spurningu blaðsins: ,,Já, ég er sammála því.`` --- Þ.e. að fækka beri hrossum í landinu ---. ,,Það er allt of mikið um að verið sé að lífsetja hross sem engu skila okkur, hvorki útflutningstekjum af reiðhrossum og eins kjötafurðum þar sem markaðir fyrir hrossakjöt hafa ekki verið sem skyldi fyrir hendi. Töluverður hluti af þessum lífhrossum eru alls ekki reiðhross.``

Ólafur Dýrmundsson, ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands, og öllum þekktur fyrir farsæl afskipti af þessum málum sem varða landnot og m.a. mat á ásetningi, segir, með leyfi forseta: ,,Já, ég er sammála því að grisja eigi úr stofninum hross sem hvorki skila arði né ánægju. Ég veit ekki hve mikið hrossum þarf að fækka en almennt er viðurkennt að svo þurfi að vera.``

Frá hv. þm. Guðna Ágústssyni var einnig að finna svar í sama blaði. Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að vitna til ummæla hv. þm. sem er jafnframt formaður landbn. þingsins: ,,Já, hrossastofninn í landinu er of stór og það skaðar hann ekki þó hrossum fækki um 25--30%. Ég verð var við vaxandi ólgu, ekki síst vegna manna sem hafa komið sér upp stórstóði á jörðum sem ekki bera það og valda í staðinn ágangi hjá nágrönnum. Mikilvæg er skynsamleg landnýting sem býr í eðli góðra bænda.`` Þetta skilmerkilega svar hv. formanns landbn. er verðmætt inn í samhengi málsins.

[18:30]

Virðulegur forseti. Ég vil nefna fund sem Dýraverndunarfélag Reykjavíkur og Dýraverndarsamband Íslands höfðu forgöngu um, 2. maí 1997, um þetta mál og með sérstakri skírskotun til þessarar tillögu og þeirra upplýsinga sem þar komu fram. Þar höfðu margir framsögu um málið og almennt var, vil ég fullyrða, stuðningur við það að á þessum málum yrði tekið, vissulega með mismunandi áherslum eftir því frá hvaða sjónarhóli var talað, en það komu fram áhyggjur manna og ágætar ábendingar. Ég vil nefna sérstaklega ábendingu frá Ólafi Dýrmundssyni á fundi sem haldinn var á Hótel Örk 23. maí 1997 þess efnis að ákvæði væru að finna í lögum sem gerðu kleift að taka á þessum málum, m.a. með reglugerðum. Að minnsta kosti væri að hluta til slík úrræði að finna. Vísað var til, samkvæmt minnismiða sem ég á frá þessum fundi, að sárlega vantaði tvær reglugerðir samkvæmt lögum um búfjárhald. Þar var nefnt hrossahald og meðferð hrossa, samkvæmt 7. gr. laga um búfjárhald, þar sem vantaði skýrari reglur um aðbúnað hrossa, skjól, húsakost og meðferð, en slík mál falli oft saman. Líka var vísað til reglugerðar sem þyrfti að setja eða útfæra um búfjáreftirlit, forðagæslu, og rammalög þar að lútandi gerðu ráð fyrir reglugerðum.

Ýmislegt er því vafalaust hægt að gera á grundvelli gildandi laga Það þyrfti þess vegna að fara fram mat í framhaldi af því ef tillaga þessi fær brautargengi í þinginu, að slík heildarathugun fari fram eins og efni tillögunnar raunar gerir ráð fyrir.

Í tillögunni er að finna upplýsingar sem eru sóttar í ágætis gögn sem hafa komið fram varðandi stöðu þessara mála. Þar er sérstaklega vísað til hinnar víðtæku könnunar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landgræðslu ríkisins á jarðvegsrofi, en skýrsla um það kom út í febrúar 1997, og síðan mat sömu stofnana á ástandi hrossahaga. Og eftir að tillagan var lögð fram, eða um það leyti, kom fram bæklingur sem heitir Hrossahagar --- aðferð til að meta ástand lands, gefið út í maí af Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landgræðslu ríkisins, þar sem er að finna leiðbeiningar, mikið í myndrænu formi, um það hvernig með tiltölulega skjótum hætti er unnt að bregðast við og meta stöðu bithaga með tilliti til álags. Það er því af miklu að taka til að fjalla um þessi efni, og verðmætar upplýsingar sem liggja fyrir, þó hitt sé einnig ljóst að rannsóknin þarf að halda áfram til þess að fá myndina sem skýrasta. Við höfum þegar upplýsingar sem eiga að gera það kleift að taka á þeim málum og það getur auðvitað ekki gengið, virðulegur forseti, að þetta þróist stjórnlaust eins og verið hefur um alllangt skeið. Talan 80 þúsund hross, í landi þar sem aðeins voru um 30 þúsund 1970, talar skýru máli.

Í fylgiskjali IV með tillögunni er að finna vísbendingu um það hvert stefni, að óbreyttu, varðandi fjölda hrossa í landinu. Þar er súlurit sem vísar mjög bratt upp þannig að fyrsta verkefnið er auðvitað að stöðva sig af í og leita síðan aðgerða til þess að fækka og laga hrossahald að ástandi lands þannig að um forsvaranlega búskaparhætti sé að ræða.

Ég hef eingöngu fjallað um hrossabeit og takmörkun á fjölda hrossa eins og efni tillögunnar gefur tilefni til. Auðvitað mætti margt segja varðandi aðra þætti. Það hefur orðið breyting á að því er varðar sauðfjárræktina vegna fækkunar, sem er fyrst og fremst tilkomin af markaðsástæðum, en hins vegar vantar stjórntækin þar einnig til að stýra þróun, ef svo fer sem kannski er ekkert útilokað vegna bættrar stöðu í sauðfjárrækt að hún aukist á ný og þá þurfa menn auðvitað að leita leiða til þess að eðlileg landnot og fjöldi búfjárins haldist í hendur.

Ég er þess fullviss, virðulegur forseti, að hv. landbn., sem ég legg til að fái þetta mál á ný til meðferðar, geti e.t.v. ekki á löngum tíma tekið afstöðu til málsins þannig að það komi til þingsins til afgreiðslu. Ég treysti því að á Alþingi sé að finna mikinn skilning að á þessu þurfi að taka og hæstv. landbrh. fái veganesti frá þinginu til þess að auðvelda hæstv. ráðherra að taka á málinu. Ég efast alls ekki um góðan hug hæstv. ráðherra til þess að svo megi verða enda gegnir sami ráðherra starfi umhvrh. sem kunnugt er þannig að hæg eru heimatökin að þessu leyti. Ég taldi hins vegar rétt að orða tillöguna með þessum hætti vegna þess að ráðuneytin eru aðskilin og hvort með sitt verksvið.