Takmörkun á hrossabeit og fjölda hrossa

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 18:36:27 (1382)

1997-11-18 18:36:27# 122. lþ. 27.5 fundur 51. mál: #A takmörkun á hrossabeit og fjölda hrossa# þál., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[18:36]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli hv. flm. þeirrar tillögu, sem hér er til umfjöllunar, þá er það vissulega rétt að menn hafa miklar áhyggjur af því hvert stefnir í sambandi við hrossaeign eða hrossafjölda í landinu og út af því hvernig þróunin hefur verið. Í tilvitnunum hjá hv. þm., bæði í umsagnir um samsvarandi tillögu frá síðasta þingi svo og ummæli úr blöðum, er ljóst að margir deila þessari skoðun með flm. og ég er einn af þeim.

Ég vil aðeins í tilefni af þessari umræðu segja frá því og láta það koma fram að ég hef á undanförnum vikum og mánuðum átt viðræður við fulltrúa samtaka hestamanna í landinu og átt með þeim góða fundi þar sem þessi mál hafa verið til umræðu, bæði Félag hrossabænda, Landssamband hestamanna og samband, sem ég þori varla að nefna nafnið á, því ég er svo hræddur um að fara ekki rétt með en það er íþróttasamband hestamanna eða hestaíþróttasamband --- ég þori ekki alveg að fara með nafnið rétt, en öll þessi samtök og forsvarsmenn þeirra hafa lýst hliðstæðum áhyggjum yfir þessari þróun og þeirri ímynd sem hestamennska og hrossahald í landinu er því miður að fá út af þessari miklu fjölgun og þeim vanda sem skapast sums staðar. Ég vil út af fyrir sig undirstrika það að víða er hrossabeit í góðu lagi og fjöldi þessara ágætu hestamanna og hrossabænda hefur fullan skilning á því að það beri að fara svo með landið að það þoli þá beit sem á það er sett. En sums staðar er því miður málum ekki svo vel komið. Ég hef átt viðræður við forsvarsmenn Landgræðslu ríkisins um þessi mál og hvernig hægt sé að taka á þeim. Ég held að það sé almennt álit manna að 80 þúsund hross, eins og hér er sett fram í greinargerðinni að kunni að vera í landinu --- meira að segja hef ég heyrt hærri tölur en hef það ekki nákvæmlega, ég hef heyrt það álit að 50--60 þúsund hross sé fyllilega nægjanlegt til þess að viðhalda góðu hrossakyni hér.

Ég vil líka undirstrika það álit mitt að ég held að við eigum fyrst og fremst að hugsa um hestamennskunna í þeim tilgangi að hafa reiðhross og nota hross í þeim tilgangi, en það er vaxandi áhugamennska hjá fjölda landsmanna að eiga hross sér til ánægju, útivistar og tómstunda, en líta ekki á hrossahaldið sem búgrein í þeim skilningi að nauðsynlegt sé að vera með kjötframleiðslu. Auðvitað er ég ekki að segja að það eigi ekki við að einhverju leyti og ekki megi huga að slíkum markaði ef hann er fyrir hendi. Ef hann gefur viðunandi tekjur ber að nýta slíka möguleika eftir því sem landgæði þola og bændastéttinni veitir sannarlega ekki af að nýta alla sína tekjumöguleika. En því miður hefur þróunin á kjötmarkaði verið sú að við misstum bærilegan markað í Japan, þó að hann sé aðeins að koma upp aftur. Einhver markaður mun nú vera fyrir hrossakjöt á Ítalíu og leitað hefur verið markaða víðar, m.a. í Frakklandi. Þetta er þó allt saman í litlum mæli. En m.a. vegna hrunsins í Japan, eða ég hygg að það sé m.a. vegna þess, hefur hrossum fjölgað meira en menn höfðu þó e.t.v. að öðru leyti gert ráð fyrir.

Ég vil einnig segja frá því að við fórum í sumar mjög ítarlega yfir þau ákvæði í lögum sem gefa heimildir til að taka á málum þar sem hrossabeit er talin vandamál og við höfum reyndar verið með í undirbúningi að undanförnu, í samráði og samstarfi við Landgræðsluna, ítarlega skoðun á því hvar sé þörf að grípa inn í vegna þess að ástand sé óviðunandi og verði að taka á málinu. Það eru örlítið skiptar skoðanir um það hversu haldgóð núgildandi lög séu í því efni en ég hef lýst þeim vilja mínum, bæði við Landgræðsluna og við starfsmenn mína í landbrn., að ég vilji láta á það reyna. Ef svo færi að gildandi lög séu ekki nægjanlega haldgóð til að takast á við ástandið þar sem það er verst þá verður bara að breyta þeim lögum þannig að við höfum í höndunum möguleika á að taka á vandanum þar sem ástandið er orðið óviðunandi.

Það er auðvitað ekki skemmtilegt og getur ekki verið markmið að stjórna öllu í okkar ágæta landi með einhverjum kvótum og þurfa að setja takmarkanir á fleiri og fleiri þætti í þjóðfélagsgerð okkar og hegðan eins og það að takmarka fjölda hrossa með einhvers konar kvótasetningu. Ég býst við að fyrst og fremst sé átt við það í tillögutextanum að hafa heimildir til að takmarka fjölda hrossa á ákveðnum svæðum og geta beitt aðgerðum til að koma í veg fyrir það að of mörg hross gangi á of litlu eða þröngu landi eða landi sem ekki þolir viðkomandi fjölda hrossa eða þá beit og beitarálag sem þeim fylgir. Það sé sú aðferð sem við þurfum fyrst og fremst að huga að, og að því leytinu til er ég fylgjandi því efni sem kemur fram í till. til þál., eins og hún er sett fram, að nauðsynlegt er að taka á málunum. Sjálfsagt eru í einhverjum tilvikum þau tækifæri fyrir hendi og yfirvöld landbúnaðar- og umhverfismála hafa kannski ekki verið nægjanlega fylgin sér eða ákveðin í að fylgja því eftir en ég ítreka að þetta hefur þó verið í skoðun á undanförnum vikum og í undirbúningi er að grípa til aðgerða þar sem við teljum að sé algjörlega brýnt.

Allra seinast vil ég nefna að ég tel að það rit sem hv. framsögumaður vitnaði til áðan, Hrossahagar --- aðferðir til að meta ástand lands, sé gott rit og nýtilegt til þess að viðhafa áróður og kynningu í þessu efni og með góðum stuðningi þeirra manna, sem fylla samtök hestamanna, trúi ég því að hægt sé að beita slíkum aðferðum og er það auðvitað miklu betra ráð, að fá menn til að virða umhverfi sitt, landið, og nýtingarmöguleika, frekar en að þurfa að beita valdi ef hjá því er komist.