Náttúruvernd

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 18:46:11 (1384)

1997-11-18 18:46:11# 122. lþ. 27.7 fundur 73. mál: #A náttúruvernd# (landslagsvernd) frv., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[18:46]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Það mál sem ég mæli fyrir, frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 93/1996, hefur komið fram a.m.k. tvisvar áður á Alþingi. Það var fyrst flutt á 119. þingi, ef ég man rétt, og hefur tvívegis farið til hv. umhvn. til athugunar en ekki hlotið afgreiðslu.

Efni frv. varðar tillögu um víðtækari ákvæði varðandi landslagsvernd en er að finna í gildandi lögum um náttúruvernd og styrkingu á ákvæðum að því er varðar efnistöku og efnisnám þannig að þau mál yrðu færð til annars og betri vegar en nú er. Efnistaka sem gerð er á grundvelli gildandi lagaákvæða, sem er afar veik, er einn af hinum lökustu þáttum í umgengni okkar við landið.

Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að rekja efni þessa máls á nýjan leik. Ég hef þegar mælt fyrir málinu á fyrri þingum og farið í gegnum stöðu mála og einstaka þætti frv. og ég vona að hæstv. forseti virði mér það að fara ekki að rekja það í einstökum atriðum. En ég sé ástæðu til þess að vekja athygli á að fram hafa komið umsagnir við málið til þingnefndar og samþykktir verið gerðar um þetta efni. Það er aðeins ein sem ég ætla að leyfa mér að vitna til, sem er ályktun níunda náttúruverndarþings sem haldið var í Reykjavík 31. jan. og 1. febr. 1997, sem ályktaði svo, með leyfi forseta: ,,Breyting á lögum um náttúruvernd, nr. 93/1996. Níunda náttúruverndarþing styður fram komið frumvarp, nr. 529, [sem er það númer sem málið sem hér er mælt fyrir hafði þá] til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 93/1996.`` Ályktunin barst umhvn. Alþingis með sérstöku bréfi frá Náttúruverndarráði.

Ég hafði vissulega vænst þess, virðulegur forseti, að málið fengi efnislega afgreiðslu í þingnefnd og kæmi aftur fyrir þingið í ljósi þess hversu brýnt málið er. Það hefur farið svo að ekki hefur verið unnið í málinu í raun af hálfu hv. umhvn. umfram það að leita álits og verið vísað til þess að lög um náttúruvernd væru í heildarendurskoðun á vegum hæstv. umhvrh. Mér er kunnugt um að svo er og nokkuð um liðið síðan slíkt starf fór af stað. Ég hef ekki frétt af því hvar það er statt en ég vænti þess að málið fái frekari athugun af hálfu hv. umhvn. Ég treysti því jafnframt að málið hafi borist fyrir nefnd hæstv. umhvrh., sem er að störfum, þannig að sú vinna sem liggur að baki í málinu skili sér með einhverjum hætti til þingsins og þær lagabætur sem gerð er tillaga um.

Ég tek að endingu fram, virðulegur forseti, að við undirbúning málsins var haft samband við opinberar stofnanir eins og þáverandi Náttúruverndarráð og Skipulag ríkisins, og raunar fleiri aðila sem leitað var til í sambandi við mótun þeirra tillagna sem gengu inn í frv. Ég tel að eftir atvikum hafi verið allvel vandað til þeirra tillagna sem hér liggja fyrir. Ég legg svo til að frv. gangi til hv. umhvn.