Náttúruvernd

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 18:50:45 (1385)

1997-11-18 18:50:45# 122. lþ. 27.7 fundur 73. mál: #A náttúruvernd# (landslagsvernd) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[18:50]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að ræða mikið efnislega um frv. sem er til umræðu. Eins og kom fram hjá hv. frsm. höfum við áður rætt málið hér á þingi og ég hef líka lýst því yfir við þá umræðu að ástæða sé til þess og nauðsynlegt að taka frekar á þáttum sem varða efnistöku eða efnisnám og námavinnslu í lögum um náttúruvernd og að því leytinu til lýst stuðningi mínum við efnisatriði þess frv. sem liggur fyrir þinginu einu sinni enn.

Það er vissulega rétt hjá hv. frsm. að ég hef áður vísað til þess að lög um náttúruvernd séu í heildarendurskoðun. Ég leyfi mér reyndar að gera það einu sinni enn í tengslum við umræðu um frv. án þess að í því felist að kastað sé nokkurri rýrð á frv. eða efnisatriði þess. Að störfum er nefnd sem vinnur að heildarendurskoðununni. Samkvæmt erindisbréfi hennar átti hún að hafa lokið störfum sínum nú fyrir komandi áramót, þ.e. á árinu 1997. Formaður nefndarinnar er reyndar aðstoðarmaður umhvrh. þannig að það eru hæg heimatökin að fylgjast með framgangi þessa nefndarstarfs og mér er ljóst að því mun vart ljúka fyrir áramót eins og erindisbréfið hljóðaði þó upp á. Vonir eru til þess að það geti samt orðið fljótlega eftir áramót eða á þessum vetri. Ég geri mér enn þá vonir um að hægt verði að leggja nýtt frv. að lögum um náttúruvernd fyrir það þing sem nú situr þó það verði ekki fyrr en á vorþingi og þá er varla líklegt að slíkt frv. yrði gert að lögum á því þingi en nauðsynlegt væri, eða a.m.k. mjög ánægjulegt, að geta sýnt það hér á þinginu.

Ég vil líka segja frá því að mér er einnig kunnugt um að nefndin hefur tekið þau frv. sem hafa komið fyrir þing og hafa fjallað um mál sem tengjast náttúruvernd, þar á meðal þetta frv., eða frv. hliðstætt þessu sem er til umræðu, og tekið það til meðferðar í starfi sínu, og tekið tillit til efnisatriða sem þar eru sett fram í þeirri heildarendurskoðun sem í gangi er. Ég mæli enn þá með því að menn líti heildstætt á málið og nýti sér þá vinnu sem lögð hefur verið í frv. sem þetta og önnur sem kunna hugsanlega að vera af svipuðum toga, þ.e. fjalla um málaflokkinn og eru mikilvæg gögn og þýðingarmikil og gott innlegg í þá umfjöllun og þá heildarendurskoðun sem á sér stað í endurskoðunarnefndinni. Ég ítreka það að ég vona að það gefist tækifæri til þess að sýna afrakstur þeirrar vinnu fyrir þinglok í vor.