Landgræðsla

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 19:04:33 (1388)

1997-11-18 19:04:33# 122. lþ. 27.9 fundur 83. mál: #A landgræðsla# (innfluttar plöntur) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[19:04]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það er aðeins örstutt. Ég ætla ekki frekar en hv. frsm. og 1. flm. þessa lagafrv. að fara í ítarlega efnisumfjöllum um frv. Það hefur áður komið fram í svipuðum búningi þó hér séu reyndar nýjar áherslur. Eins og hv. flm. gerði grein fyrir er fyllri grg. með frv. sem ég hef ekki gefið mér tíma til að fara yfir eða bera saman við eldri þingskjöl. Þar sem hv. þm. lét að því liggja að löngu tímabært væri að endurskoða lög um landgræðslu og að nokkur seinagangur væri á því hjá stjórnvöldum að hefja það starf vil ég geta þess að landbrn. hefur rætt það og farið yfir hvernig beri að taka á málefnum Landgræðslunnar. Ég hygg að reyndar megi segja um þá stofnun, og þau lög sem í gildi eru, að stofnunin hafi unnið mikið og gott starf á undanförnum árum og áratugum því eins og menn kannski vita er stofnunin 90 ára gömul á þessu ári og mun nú í vikulokin minnast þess afmælis.

Það er rétt að margt breytist í tímans rás. Taka þarf á málum bæði í ljósi nýrrar þekkingar, nýrra athafna og nýrra viðhorfa til málefna er tengjast landgræðslu og sjálfsagt er af ýmsum ástæðum tími til kominn að líta á lögin. En það sem ég ætlaði aðallega að greina frá er að við höfum rætt það í landbrn. að setja á laggirnar stefnumótunarvinnu í sambandi við landgræðsluna. Reyndar var hugað að því að setja frekar á fót nokkuð víðtæka nefnd til þess að fjalla um stefnumótun í landgræðslu og taka síðan upp úr því ákvörðun um það hvort og með hvaða hætti þyrfti að breyta lögum um þessa starfsemi. Þetta hefur ekki enn þá komist formlega á laggirnar en er enn í vinnslu eða undirbúningi af minni hálfu. Í leiðinni má geta þess að í ráðuneytinu er tilbúið frv. til nýrra laga um skógrækt þó að það sé ekki það sem hér er til umræðu, en ég vonast til þess að geta sýnt það í hv. þingi áður en langt um líður.

Allra seinast vil ég greina frá því að á vegum landbrh. er að störfum nefnd sem er að fjalla um notkun innfluttra plantna. Ég veit að sú nefnd hefur starfað mikið að undanförnu og m.a. einnig stuðst í vinnu sinni við þau frv. sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur áður lagt fyrir þingið og haft þau til hliðsjónar í nefndarstarfi sínu. Enda þótt taka megi undir þær athugasemdir sem hv. þm. setti fram í umræðu um næsta dagskrárlið á undan, að þingið eigi að fá frið til þess að vinna að frv. og þingmálum sem eru lögð fram af hv. þm. án sérstakra afskipta --- að ég tali nú ekki um tafa --- af hálfu framkvæmdarvaldsins er það þó oft svo að frv. sem eru lögð fram af hv. þm. hreyfa við eða ýta við framkvæmdarvaldinu á einn eða annan hátt og leiða þannig óbeint til þess að tekið er á ýmsum atriðum sem bent er á hér á þingi. Ég vildi láta það koma fram að nefndin er að störfum og ég á von á því að áður en langt líður skili hún tillögum sínum til ráðherra.