Förgun mómoldar og húsdýraáburðar

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 13:44:54 (1396)

1997-11-19 13:44:54# 122. lþ. 28.1 fundur 104. mál: #A förgun mómoldar og húsdýraáburðar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[13:44]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. fyrir skýr svör sem og þeim hv. þingmönnum sem tóku til máls og lögðu hér orð í belg. Ég vil um leið fagna skipan þeirra nefnda sem hæstv. umhvrh. greindi frá og treysti því að nefndastarf það skili jákvæðum árangri og ég treysti umhvrh. til að fylgja þeim tillögum eftir.

Hins vegar er rétt að taka fram sem hæstv. ráðherra nefndi að m.a. þyrfti að fjalla um þessi mál þannig að þau efni sem hér um ræðir valdi sem minnstum skaða. Ég held að mikilvægt sé að undirstrika að ekki á einungis að líta á þetta frá skaðasjónarmiði heldur að hafa í huga að hér er um gífurleg verðmæti að ræða sem hægt er að nýta til að græða upp land okkar. Ég vil jafnframt nefna það við hæstv. ráðherra að hann beini því til nefnda sinna að fjalla ekki eingöngu um úrgang, húsdýraáburð og annað því um líkt heldur einnig um mómold. Ég heyrði ekki í máli hæstv. ráðherra að nefndunum væri sérstaklega ætlað að fjalla um afdrif mómoldar sem fellur til þegar unnið er að mannvirkjum. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að beina því til nefndanna.

Ljóst er að ýmis kostnaður fylgir aðgerðum á þessu sviði til að gera þau efni sem hér um ræðir að verðmætum. Samtökin Gróður fyrir fólk hefur m.a. bent á að í útboðsskilmála Vegagerðar vegna vegalagningar megi setja ákvæði um að mómold skuli komið fyrir á stöðum til uppræktar. Hér hefur verið nefnd gjaldtaka vegna stóru búanna til að koma úrgangi fyrir á réttum stöðum og þar fram eftir götunum. Þetta eru í sjálfu sér engin ný sannindi því í Njálu er haft eftir Njáli að aka skuli skarni á hóla. Þetta er það sem málið snýst um og ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að fylgja þessu eftir, jafnvel með lagasetningu um bann við förgun á mómold og þeim efnum sem hér um ræðir.