Biðlauna- og lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisbankanna

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 14:14:04 (1406)

1997-11-19 14:14:04# 122. lþ. 28.4 fundur 106. mál: #A biðlauna- og lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisbankanna# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi GHelg
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[14:14]

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Á þskj. 106 hef ég lagt fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. viðskrh.:

Telur ráðherra það samrýmast 72. gr. stjórnarskrárinnar að mikilvægur þáttur í lögkjörum starfsmanna ríkisbankanna, svo sem réttur til biðlauna, sé skertur eins og gert var með lögum nr. 50/1997 eða réttur ríkisstarfsmanna til biðlauna eins og gert var með lögum nr. 70/1996?

Telur ráðherra vafa leika á að áunninn lífeyrisréttur starfsmanna ríkisbankanna þar til hlutafélögin um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands voru stofnuð verði ríkistryggður?

Hæstv. forseti. Þegar ný lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins voru sett árið 1996, lög nr. 70, féllu úr gildi lög nr. 34/1954. Með hinni nýju lagasetningu var biðlaunaréttur hinn sami og áður, 6--12 mánuðir eftir starfstíma nema starfsmaður hafi hafnað sambærilegri stöðu hjá ríkinu. En sú meginbreyting var gerð með hinum nýju lögum að nú missir hann einnig biðlaunarétt hafi hann hafnað starfi hjá öðrum aðila, sbr. 1. mgr. 34. gr. laganna.

Í 2. mgr. 34. gr. er einnig að finna ákvæði um að biðlaun falli niður hefji maður störf hjá öðrum aðila en ríkinu á biðlaunatímanum. Það er því ljóst að biðlaunaréttur opinberra starfsmanna hefur verið þrengdur til muna með lagasetningu þessari án þess að nokkuð kæmi í staðinn.

Í dómi hæstaréttar árið 1990, bls. 452, er það gert að áhersluatriði að 6--12 mánaða biðlaunaréttur starfsmanna ríkisins samkvæmt lögum nr. 34/1954 sé svo sérstaks eðlis, vegna þess að um sé að ræða starfsmenn ríkisins og svo mikilvægur þáttur í lögkjörum þeirra, að honum verði jafnað til eignarréttar í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar, lög nr. 33/1944, með síðari breytingum. Þar segir að eignarréttur sé friðhelgur og engan megi skylda til að láta eign sína af hendi nema almannaþörf krefji. Til þess þurfi lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Ekki verður séð hver sú umbun var.

Þegar rekstrarformi ríkisbankanna var breytt í hlutafélög með lögunum nr. 50/1997 var svo kveðið á að með biðlaunarétt starfsmanna þeirra skuli fara eins og lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna segja til um. Og til þess kynni leikurinn m.a. að hafa verið gerður því að um er að ræða 3.300 starfsmenn ríkisbankanna og þá þegar ljóst að breytingar voru yfirvofandi í ríkisbönkunum. Til þess að bíta höfuðið af skömminni voru starfsmenn bankanna síðan látnir undirrita afsal biðlaunaréttar í umsókn sinni um starf hjá hinu breytta fyrirtæki og áttu menn líklega fárra kosta völ ef þeir hugðust halda starfi sínu.

Þá eru ákvæði í nýju lögunum um að ríkistrygging verði áfram á áunnum lífeyrisrétti bankastarfsmanna og þó nú væri. En í 11. gr. laganna segir þó: ,,... ef ekki nást á einhverjum tíma samningar um aðra tilhögun.`` Og mér þætti gaman að heyra hvað er átt við með þessari setningu.

Ég mun taka til máls aftur, hæstv. forseti, og læt þetta nægja í bili þar sem tíminn er þrotinn.