Biðlauna- og lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisbankanna

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 14:23:26 (1408)

1997-11-19 14:23:26# 122. lþ. 28.4 fundur 106. mál: #A biðlauna- og lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisbankanna# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi GHelg
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[14:23]

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Það fór sem mig uggði að ég held að hér séu starfsmenn Landsbanka og Búnaðarbanka að láta fara illa með sig. Það er alveg ljóst að þetta fólk er farið að vinna hjá öðruvísi fyrirtæki sem getur þess utan breyst hvenær sem mönnum sýnist svo. Og ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt, sem ég vona að ég hafi gert, en ég mun að sjálfsögðu fá ræðu hans skrifaða, þá sýnist mér að það sé raunar ekki tryggt að ríkið sé í ábyrgð um allan aldur fyrir áunnum rétti þar til bankarnir urðu hlutafélög. Nú vona ég að ég hafi ekki misskilið. En þarna er greinilega verið að semja um eitthvað annað.

Það er alveg rétt að í vinnslu eru reglugerðir fyrir hvorn sjóðinn fyrir sig. Ég held hér á drögum að reglugerð um Lífeyrissjóð bankamanna. Mér sýnist eftir því sem ég best veit að sú reglugerð sé ekki komin út hjá ráðuneytinu, því síður í Stjórnartíðindum. En hér held ég að það fari ekkert á milli mála að verið er að fara aftan að þessum starfsmönnum.

Nú er það alveg rétt hjá hæstv. ráðherra, svo furðulegt sem það nú er, að starfsmenn virðast hafa meira og minna samþykkt þetta. Að vísu hef ég fengið þær upplýsingar að fundir hafi verið afar fámennir og stórar ákvarðanir teknar af ótrúlega litlum hluta þeirra 3.300 starfsmanna sem hjá bönkunum vinna. En það er jafnljóst að fólk var auðvitað mjög uggandi um sinn hag, óttaðist að fá ekki starf sitt aftur og taldi sig áreiðanlega neytt til að gangast meira og minna inn á það sem hér var í bígerð.

Ég lýsi því yfir, hæstv. forseti, að ég tel að því miður hafi ég fengið önnur svör við fyrirspurn minni en ég var að vona. Ég held að þarna hafi verið tekinn í fyrsta lagi mikilvægur réttur af starfsmönnum til biðlauna og í öðru lagi að það sé hreinlega ekki tryggt að ríkið beri ábyrgð á þeim lífeyrissjóðsréttindum sem þetta fólk hafði aflað sér áður en bankarnir voru einkavæddir.