Umferðaröryggismál

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 14:32:26 (1411)

1997-11-19 14:32:26# 122. lþ. 28.5 fundur 181. mál: #A umferðaröryggismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[14:32]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Sem svar við fyrstu spurningu hv. þm. er það að segja að sú nefnd sem þar er spurt um hefur ekki enn verið skipuð en ég vænti þess að það verði gert að höfðu nánara samráði við samgrh. Á hinn bóginn hefur þriggja manna nefnd verið skipuð, eða þriggja manna starfshópur, sem m.a. á að gera árlega skýrslu til ráðherra um framkvæmd umferðaröryggisáætlunarinnar og gera tillögur um ný verkefni og hafa samskipti við þá sem að umferðaröryggismálum koma og samræma aðgerðir í þeim efnum í samræmi við þá tillögu sem Alþingi hefur samþykkt.

Varðandi aðra fyrirspurnina er það að segja að samræmd skráning Umferðarráðs, sjúkrastofnana og tryggingafélaga hefur ekki átt sér stað. Skráning Umferðarráðs á umferðarslysum byggir á skýrslum lögreglu. Vegagerðin og aðrir veghaldarar fá upplýsingar frá Umferðarráði um slysatölur. Sjúkrahús Reykjavíkur hefur slysaskráningu og flestar sjúkrastofnanir í landinu. Yfirlæknirinn á Sjúkrahúsi Reykjavíkur sem um þessi mál fjallar hefur haft umsjón með gerð forrits til að staðla slysaskráningar sjúkrastofnana. Viðræður eru nú í gangi á milli Umferðarráðs og Sjúkrahúss Reykjavíkur um hvernig megi bera saman slysaskráningu stofnananna og bæta þær upplýsingar sem til eru í dag. En vandamál á slíkum samanburði eru varðandi trúnaðarupplýsingar og tengingu við staðsetningu skráðra slysa. Á næsta ári kemur væntanlega í ljós hvort unnt verður að samræma þessa skráningu að fullu.

Um þriðju spurninguna er það að segja að í þáltill. um aukið umferðaröryggi er hvatt til þess að öll sveitarfélög með fleiri íbúa en 1.000 geri eigin umferðaröryggisáætlun og einnig aðrir aðilar sem vinna að umferðaröryggismálum. Um 80 aðilar sendu inn áætlun fyrir árið 1997 og var það í raun betri árangur en búist hafði verið við fyrir fram.

Um fjórðu spurninguna er það að segja að eins og kunnugt er var notkun hjólreiðahjálma fyrir börn sem eru yngri en 15 ára sett í reglugerð nú í haust. Þessar reglur fengu góðar viðtökur og í sérstakri könnun sem Umferðarráð hefur látið gera hefur komið fram að 68% svarenda voru hlynntir því að almenn ákvæði fyrir alla aldurshópa yrðu sett um notkun hjólreiðahjálma. Þegar frekari reynsla er fengin af framkvæmd þeirrar reglugerðar sem sett hefur verið verður tekin ákvörðun um hvort víðtækari reglugerðarsetning af þessu tagi kemur til álita.

Varðandi fimmtu spurninguna um innheimtukerfi sekta vegna umferðarlagabrota er það að segja að þegar umræður hófust um kaup á notkun á umferðarmyndavélum var nauðsynlegt að endurskoða innheimtukerfið með það í huga að fjöldi sekta vegna umferðarlagabrota mundi aukast. Einnig var tekið til athugunar hvernig einfalda mætti sektarinnheimtuna til að bæta árangur og afköst lögreglunnar.

Snemma á síðasta ári skipaði ég nefnd sem skilaði skýrslu með tillögum að leiðum að bæta núverandi úrræði til sektarinnheimtu. Alþingi samþykkti í vor breytingar á umferðarlögum að tillögu nefndarinnar og ákvæðum um vararefsingu var bætt í hegningarlögin. Verið er að vinna að miðlægu mála- og innheimtukerfi á vegum embættis ríkislögreglustjóra og dómsmrn. Kerfið mun sjá um málaskrá, innheimtu og punktakerfi hjá öllum lögregluembættum í landinu. Einnig er verið að íhuga frekari tillögur um breytingar á umferðarlögum til að einfalda innheimtuferlið og tryggja að öll umferðarlagabrot verði innheimt, en það er að sjálfsögðu mikið réttlætismál að jafnræði ríki í þeim efnum. Nýja innheimtukerfið verður tekið í notkun 1. janúar á næsta ári.

Varðandi sjöttu spurninguna sem lýtur að því hvenær umferðaröryggisáætlun verði rædd á Alþingi, þá er rétt að minna á að ekki vannst tími til að ræða skýrsluna sem lögð var fram á síðasta þingi, en vonir standa til þess að ný skýrsla verði lögð fyrir þetta þing í byrjun næsta árs og geti þá komið til umræðu á grundvelli þeirra þingskapareglna sem um það gilda.