Umferðaröryggismál

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 14:37:42 (1412)

1997-11-19 14:37:42# 122. lþ. 28.5 fundur 181. mál: #A umferðaröryggismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[14:37]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka svör hæstv. dómsmrh. Í þeim kom fram að unnið er að því að koma áætluninni í framkvæmd og margt er í undirbúningi til þess að auka umferðaröryggi í landinu og það er vel.

Hafa menn t.d. hugleitt það að umferðarslysin eru eitt mesta heilbrigðisvandamál þjóðarinnar? Ég átti tal við landlækni um daginn um þetta og hann sagði mér að að undanskildum bólusetningum vegna ýmissa sjúkdóma skilaði ekkert forvarnastarf betri árangri en aukið umferðaröryggi. Ég vil bæta við: Og betri meðvitund í umferðinni. Ég segi: Betri meðvitund og betur vakandi hugur, því að sofandaháttur og skeytingarleysi er hvergi hættulegra en undir stýri.

Fjármunir sem varið er til umferðaröryggis skila sér margfalt til baka, reynslan sýnir það, svo aðeins sé litið á fjárhagslegan þátt þessa máls. Umferðarmál snúast um fólk og allir eiga rétt á því að geta ferðast öruggir í umferðinni og allir bera ábyrgð á því að öryggið í umferðinni vaxi.

Herra forseti. Ég hygg að við ættum að hætta að líta á slys og dauðsföll eins og lögmál, einhvers konar toll sem bílaumferðin taki. Frekar ber að horfa til þess að gott forvarnastarf skilar sér eins og bólusetning gegn sjúkdómum sem áður voru landlægir en eru nánast úr sögunni. Með öflugra starfi með þátttöku alls almennings í bættri umferðarmenningu hættum við að heyra svona oft þessar lamandi fréttir af hörmulegum umferðarslysum í samfélagi okkar. Væri forvitnilegt einnig að heyra meira um það fjallað hvort mögulegt væri að lögreglan fengi bónus fyrir að sinna betur sínu starfi. Það var sagt hér á þingi um daginn að hætta væri á því, ef lögreglan fengi bónus fyrir að sekta, að henni væri sigað á almenning. Ég segi nú bara að þeir hafa ekki þurft þessa hvatningu í Húnavatnssýslu til þess að vinna vinnuna sína og halda öllu til haga þannig að menn ækju þar löglega.