Framkvæmd áfengislaga

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 14:49:03 (1417)

1997-11-19 14:49:03# 122. lþ. 28.6 fundur 233. mál: #A framkvæmd áfengislaga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[14:49]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 266 flyt ég fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. um framkvæmd áfengislaga. Fyrirspurnin er á þessa leið:

Hverjir skipa þá þriggja manna nefnd sem á samkvæmt áfengislögum að úrskurða um hvort vínveitingastaður er fyrsta flokks, sbr. 2. mgr. 12. gr. áfengislaga, nr. 82/1969?

Hverjar eru starfsreglur nefndarinnar í aðalatriðum?

Telur ráðherra að allir vínveitingastaðir séu fyrsta flokks, sbr. 1. mgr. sömu greinar?

Ástæðan til þess að ég nota hérna orðin fyrsta flokks, herra forseti, er sú að í 1. mgr. 12. gr. áfengislaganna segir svo, með leyfi forseta:

,,Heimilt er lögreglustjóra að veita veitingastað, sem telst fyrsta flokks að því er snertir húsakynni, veitingar og þjónustu, almennt leyfi til áfengisveitinga.``

Þess vegna er spurningin orðuð svona og er í beinum tengslum við þá spurningu sem var rædd hér síðast til hæstv. dómsmrh. um endurskoðun áfengislaganna. Ég vil nota þetta tækifæri til að vísa einnig aðeins til þeirrar umræðu og segja að ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það að hann skyldi lýsa þeirri skoðun sinni að sveitarfélögin ættu að hafa afgerandi vald í málum af þessu tagi þó að hitt sé hins vegar ljóst að hið almenna löggæsluvald lögreglunnar verður ekki skert eða flutt til annars stjórnvalds en ríkisins eins og okkar löggæslumálum er háttað. Það mundi ekki bæta nokkurn skapaðan hlut að vera að þvæla hinni almennu löggæslu á milli aðila.

Hins vegar mun það vera þannig og ég vil bera um það fyrirspurn fram til hæstv. dómsmrh.: Er það rétt að lögreglan hafi núna færri úrræði til þess að beita veitingastaði viðurlögum en hún hafði fyrir fáeinum árum? Mér hefur verið tjáð af yfirmönnum í lögreglunni að nú sé þessu þannig háttað að ekki sé lengur hægt að svipta stað vínveitingaleyfi um næstu helgi eftir þá helgi sem staðurinn hefur verið talinn brotlegur við lög og reglur. Lögreglumenn og yfirmenn í lögreglunni segja mér að þetta úrræði, að geta svipt vínveitingastað vínveitingaleyfi um næstu helgi á eftir, hafi verið mikið notað og það hafi verið mjög virkt og það hafi hjálpað mjög mikið og væri bestu agaviðurlögin sem hugsast gætu í þessu efni. En þeir hafa jafnframt tjáð mér að þeir hafi verið sviptir þessum heimildum. Og ég vil skjóta því hér inn í sem viðbótarfyrirspurn: Er þetta rétt og af hverju var það gert?