Framkvæmd áfengislaga

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 14:55:00 (1419)

1997-11-19 14:55:00# 122. lþ. 28.6 fundur 233. mál: #A framkvæmd áfengislaga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[14:55]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson hreyfir hér mikilvægu máli sem vissulega er tímabært að ræða um að taka málin nýjum tökum. Hann spurði t.d. um það hvort allir vínveitingastaðir væru fyrsta flokks, en ekki má veita öðrum vínveitingaleyfi, og hvað þá væri átt við. Ég sat í áfengisvarnanefnd úti á landi um alllangt skeið og mér fannst lögin þannig vaxin að útilokað væri að komast fram hjá því að veita leyfin eða heimila vínsölu. Nefndin hefði því eiginlega ekki átt að heita áfengisvarnanefnd heldur frekar vínveitinganefnd því að hún átti engan kost á öðru en að heimila sölu.

Herra forseti. Áfengismálin eru í ólestri á Íslandi þótt hvergi í heiminum sé meira um þau fjallað, hvergi fari fleiri í meðferð vegna áfengissýki o.s.frv. Getur ekki verið, með fullri virðingu fyrir SÁÁ og öllum þeim sem vinna að áfengisvörnum og bættri vínmenningu, að við þurfum alvarlega að endurskoða áfengisstefnuna, áfengisvarnirnar, vínsöluna, útivist unglinga og hvað eina sem snertir þessi alvarlegu mál?