Hvíldar- og þjónustustaðir fyrir ökumenn flutningabifreiða

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 14:59:10 (1421)

1997-11-19 14:59:10# 122. lþ. 28.8 fundur 182. mál: #A hvíldar- og þjónustustaðir fyrir ökumenn flutningabifreiða# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[14:59]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. samgrh. svo hljóðandi:

Eru fyrirhugaðar framkvæmdir við gerð ,,útskota`` (hvíldar- og þjónustustaða) fyrir flutningabifreiðar við helstu þjóðvegi landsins?

Herra forseti. Ég tel mikið öryggis- og hagsmunamál allra vegfarenda um þjóðvegi landsins að með vissu millibili séu hvíldar- og þjónustustaðir eða áningarstaðir fyrir þá sem aka langferðabifreiðum, einkum þar sem umferð er mest. Svo er komið að flutningar á sjó sem áður voru á hafnirnar hafa færst á þjóðvegina að mestu leyti. Þannig hefur þungaflutningaumferðin aukist gífurlega á helstu þjóðvegum landsins.

Ökumenn flutningabifreiða á löngum leiðum þurfa hvíld og þeim er raunar skylt að nema staðar og hvílast samkvæmt EES-reglunum. Á vissum stöðum þurfa þeir svo að keðja bílana þegar svo ber undir. En hætta skapast bæði fyrir þá og aðra. Þeir hafa ekki möguleika á að nema staðar nema á akreininni á þjóðveginum. Gerð áningarstaða hefur verið talsverð nú undanfarið. Ég hef séð, mér til ánægju í sumar og enn fram á haustið, að verið er að vinna að slíku. Mér þætti því forvitnilegt að heyra það frá hæstv. samgrh. hversu margir þessir staðir eru nú og hvort fyrirhugað sé að gera sérstakt átak þannig að þeir verði staðsettir með vissu millibili alls staðar eða við alla helstu þjóðvegi í landinu.