Reiðvegir fyrir hestafólk

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 15:05:26 (1424)

1997-11-19 15:05:26# 122. lþ. 28.9 fundur 191. mál: #A reiðvegir fyrir hestafólk# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[15:05]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. samgrh. hvort hann hyggist beita sér fyrir aðgerðum til að tryggja hestamönnum greiða leið á ferðum sínum um landið. Lengi vel var íslenski hesturinn kallaður þarfasti þjónninn enda mikilvægasta samgöngutækið á landi hér lendis. Síðan breyttist það með tilkomu bíla. En eftir stóð afskaplega sterk menning, má segja, meðal þjóðarinnar. Hestaíþróttin og hestamennska hefur ávallt verið stunduð.

Á síðustu árum hefur áhugi almennings, ekki síst fjölskyldna, verið að aukast verulega á því að stunda hestamennsku. Þá er einnig vert að benda á að upp er að vaxa afskaplega öflug atvinnugrein innan ferðaþjónustunnar sem snýr að skipulegum hestaferðum með íslenska og ekki síst erlenda ferðamenn.

Vandinn er hins vegar sá, herra forseti, að hestamenn eiga sífellt minnkandi möguleika á því að ferðast um landið sem óneitanlega er einn megintilgangur hestamennsku. Vegna þess mikilvæga hlutverks sem hesturinn gegndi er ég nefndi hér áðan, þá er söguleg hefð fyrir reiðvegum víða um landið til þess að hestamenn komist leiðar sinnar. Nú hefur hins vegar á síðustu árum orðið þar veruleg breyting á og er í rauninni margt sem veldur.

Annars vegar má nefna að vegir fyrir bílaumferð hafa verið lagðir og víða yfir hefðbundna gamla reiðvegi án þess að endurnýja hina síðari. Í annan stað hefur færst mjög í vöxt á síðustu árum að einstaklingar festi kaup á jörðum án þess að stunda þar hefðbundinn reglulegan búskap, en eiga til að girða jarðir sínar og banna umferð um þær jarðir og þar með í rauninni að loka reiðvegum sem löng söguleg hefð er fyrir. Vegna þessa er að skapast mikil hætta. Þetta þýðir t.d. að við rekstur í vorhaga þurfi menn að beina stóðum sínum á vegi þar sem mikil bílaumferð er. Það skapar mikla slysahættu. Þá er mér kunnugt um að fyrirtæki eru beinlínis að tapa viðskiptum þar sem þau geta ekki skipulagt hestaferðir eftir þessum hefðbundnu reiðvegum og aðgengi um uppsveitir og upp á miðhálendið er truflað. Þess vegna spyr ég hæstv. samgrh. hvort hann hyggist beita sér fyrir breytingum á þessu sviði.