Reiðvegir fyrir hestafólk

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 15:08:36 (1425)

1997-11-19 15:08:36# 122. lþ. 28.9 fundur 191. mál: #A reiðvegir fyrir hestafólk# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[15:08]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Vegamálastjóri svarar fyrirspurninni svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í 17. gr. vegalaga, nr. 45/1994, segir að í vegáætlun skuli veita fé til reiðvega samkvæmt sérstakri áætlun sem gerð er að höfðu samráði við samtök hestamanna og sveitarfélög. Hins vegar eru reiðvegir ekki teknir upp í ákveðinn vegflokk og því ljóst að ekki er um þjóðvegi að ræða samkvæmt skilningi vegalaga enda eru þeir settir undir þann kafla vegalaga sem ber yfirskriftina: Almennir vegir og einkavegir. Reiðvegir lúta því ekki forræði Vegagerðarinnar hvað veghald varðar og eru ekki á valdi ráðherra með sama hætti og þjóðvegir.

Svo sem ráð er fyrir gert í tilvitnaðri lagagrein er fé veitt til reiðvega í vegáætlun, sem dæmi: 10 millj. kr. á árinu 1996 og 11 millj. kr. á þessu ári. Fjárhæðir þessar hafa verið svipaðar eða lægri á undanförnum árum og hvergi nærri dugað til. Því hefur verið ákveðið að gera tillögu um að hækka þessar fjárhæðir á næstu árum og raunar hefur nú þegar verið ákveðið með fjáraukalögum að hækka framlög þessa árs um tæpan helming, þ.e. um 10 millj. kr. þannig að heildarframlagið í ár verði 21 millj. kr.

Sá háttur hefur verið hafður á varðandi framkvæmd þessara mála að Landssamband hestamannafélaga hefur skipt framlögum til einstakra hestamannafélaga og Vegagerðin síðan greitt samkvæmt framlögðum reikningum. Unnið hefur verið á undanförnum árum að þeirri áætlun um reiðvegi sem nefnd er í 17. gr. vegalaga og er sú vinna nú langt komin. Hefur þessi vinna farið fram að mestu á vegum Landssambands hestamannafélaga í samráði við Vegagerðina.

Því miður er það allt of víða svo að reiðleiðir ligga fram með þjóðvegum og umferð hesta og hestamanna þannig óvarin fyrir umferð bifreiða. Þessi umferð fer í raun engan veginn saman og skapar þetta fyrirkomulag mikla hættu, bæði fyrir bifreiðaumferð og umferð hestamanna. Því er mun æskilegra að aðskilja þessa umferð svo sem sums staðar hefur verið gert, m.a. með því að nota aflagða vegi undir umferð hestamanna og einnig með því að leggja nýjar reiðleiðir. En til þess að svo megi verða þarf atbeini sveitarstjórna að koma til m.a. af skipulagslegum ástæðum og raunar má leiða rök að því að sveitarfélög ættu í auknum mæli að taka þessi mál til sín og sjá um framkvæmd þeirra í samvinnu við hestamannafélög.

Svo sem að framan var getið hefur auknu fjármagni verið veitt til reiðvegagerðar á þessu ári og fyrirhugað er að veita auknu fjármagni til þessa liðar á næstu árum. Einnig hefur farið fram áætlunargerð um reiðvegi í samvinnu við Landssamband hestamannafélaga. Frekari aðgerðir eru ekki fyrirhugaðar að svo komnu en ítrekuð sú skoðun að sveitarfélög ættu í auknum mæli að koma að þessum málum og sjá til þess að færar reiðleiðir væru um héruð fjarri hættu þjóðveganna.``

Herra forseti. Ég vil svo bæta við það sem hér segir í fyrsta lagi að meðan ég var landbrh. lét ég vinna skýrslu sem gæti verið til leiðbeiningar um það hvernig skipuleggja ætti reiðvegi um hálendi landsins. Ég hef jafnframt átt fundi um þessi mál með fulltrúum frá Landssambandi hestamannafélaga og Sigurgeiri Þorgeirssyni --- á ég að segja forstjóra Bændasamtakanna eða búnaðarmálastjóra. Ætli hann sé ekki forstjóri Bændasamtakanna --- og jafnframt með sveitarstjórnarmönnum.

Ég er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að gefa reiðvegum meiri gaum í framtíðinni en verið hefur. Við verðum varir við að í sumum byggðarlögum hefur komið upp ágreiningur milli jarðeigenda og hestamanna. Það liggur líka fyrir að þegar nýir vegir hafa verið lagðir, kannski á nýjum stöðum, þá hefur þess ekki verið gætt að reyna að varðveita gömlu þjóðvegina fyrir hestamenn. Ég hygg að nauðsynlegt og óhjákvæmilegt sé að taka þessi mál öll upp í víðu samhengi og hafa verið lögð drög að því að svo verði gert.

(Forseti (ÓE): Forseti væntir þess að líta megi á þetta sem svar hæstv. ráðherra en ekki bara vegamálastjóra.)

Ég bætti nú við.

(Forseti (ÓE): Já. Það gerði ráðherrann líka.)