Starfsstöð Vegagerðarinnar í Rangárvallasýslu

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 15:29:35 (1432)

1997-11-19 15:29:35# 122. lþ. 28.10 fundur 205. mál: #A starfsstöð Vegagerðarinnar í Rangárvallasýslu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., GÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[15:29]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Hér er hreyft atvinnu- og tilfinningamáli. Þetta finnst mér vera sett fram af mikilli hörku af hálfu Vegagerðarinnar og óvænt og ógrunduð ályktun. Það hefur ekkert það nýtt gerst í vegamálum, hæstv. samgrh., á Suðurlandi sem styður þessa ákvörðun. Þar hafa engin jarðgöng komið eða neitt slíkt eins og hæstv. ráðherra rakti fyrir norðan. Rangárvallasýsla býr við mikil séreinkenni og þar eru mikil stórfljót og þar er jafnan von á náttúruhamförum o.s.frv. þannig að þar er mjög mikilvægt að staðsetja öflugan her tækja og manna sem eru tilbúnir við þær aðstæður. Þess vegna finnst mér þessi ákvörðun Vegagerðarinnar, sem hæstv. ráðherra styður hér, svona spark út í loftið, lítt grundað. Ég lýsi öndverðri skoðun og tel að þessi mál þurfi þá að taka upp í allt öðru samhengi og ná samstöðu um slíkt með heimamönnum. En þetta vekur deilur og illindi í héraði, hæstv. forseti, sem er ekki af því góða.