Þungaskattur

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 15:37:02 (1436)

1997-11-19 15:37:02# 122. lþ. 28.11 fundur 272. mál: #A þungaskattur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi GL
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[15:37]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Lárusson):

Herra forseti. Á þskj. 272 beini ég eftirfarandi fyrirspurn til fjmrh. um þungaskatt:

Mun ráðherra beita sér fyrir breytingu á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, í samræmi við niðurstöðu samkeppnisráðs í september sl. þess efnis að lögin mismuni atvinnubifreiðastjórum og raski samkeppnisstöðu þeirra innbyrðis?

Ástæða fyrir þessari fyrirspurn er sú að í janúar sl. sendu Landssamband vörubifreiðastjóra, Trausti, Félag sendibifreiðastjóra og Frami, Félag leigubifreiðastjóra, Samkeppnisstofnun erindi þar sem óskað er eftir úrskurði stofnunarinnar um það hvort tilteknar greinar laga nr. 3/1987, um þungaskatt, væru í anda samkeppnislaga.

Rökstuðningur félaganna er í tvennu lagi. Í fyrsta lagi var óskað eftir áliti á því ákvæði laganna að dísilbifreiðar sem ekið er gegn gjaldi samkvæmt gjaldmæli skuli greiða 30% hærri þungaskatt en sambærilegar dísilbifreiðar sem nýttar eru í sams konar atvinnurekstri. Eini sjáanlegi munurinn á milli þessara bíla er sá að annar flokkurinn hefur gjaldmæli, hinn ekki.

Í öðru lagi var óskað eftir áliti á því ákvæði laganna sem kveður á um að veita skuli stighækkandi afslátt á þungaskatti sem innheimtur er af akstri vöruflutningabifreiða samkvæmt ökumæli eftir því hve mikið bifreiðunum er ekið.

Í úrskurði samkeppnisráðs kemur fram að ráðið telur að ofangreint ákvæði þungaskattslaga brjóti í bága við 1. gr. samkeppnislaga. Samkeppnisráð álítur að umrætt ákvæði í núgildandi lögum til fjáröflunar vegagerðar miðað við núgildandi samkeppnis- og markaðsaðstæður hafi hamlandi áhrif á samkeppni. Samkeppnisráð fellst ekki á þau rök fjmrn. að ekki taki því að breyta núgildandi lögum þar sem ljóst sé að innheimta þungaskatts muni gjörbreytast í náinni framtíð. Þvert á móti segir í úrskurðinum:

,,Á meðan lög nr. 3/1987 eru í gildi óbreytt telur samkeppnisráð að verið sé að mismuna atvinnubifreiðastjórum og raska innbyrðis samkeppnisstöðu þeirra.``

Það er í þessu umhverfi sem sendibifreiðarstjórar, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, eru að keppa. Hluti þeirra hefur hætt hjá stöðvunum og hafa farið út í einkarekstur. Þar með geta þeir tekið gjaldmælinn úr þegar þeir eru að vinna fyrir ákveðin fyrirtæki og greiða þar af leiðandi 30% lægri þungaskatt. Er eðlilegt, herra forseti, að slíkt umhverfi sé bjóðandi vinnandi fólki? Þess vegna er þessi fyrirspurn hér fram lögð. Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. skýri frá því hér að hann muni beita sér fyrir því að breyta lögunum þannig að allir þeir sem eru að vinna á þessum nótum vinni við hliðstæð skilyrði.