1997-11-19 15:54:44# 122. lþ. 28.92 fundur 96#B rekstrargrundvöllur landvinnslu í samkeppni við sjóvinnslu um borð í frystiskipum# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[15:54]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég minni á að árið 1992 voru sett sérstök lög á Alþingi um fullvinnsluskip. Hluti af þeirri löggjöf fól í sér að frá og með 1. september 1996 átti að gera kröfu til þess að þau ynnu allan afla um borð. Þetta stranga ákvæði var gagnrýnt af ýmsum með tilliti til þess að menn töldu að ótækt væri að setja með lögum reglur sem skylduðu menn til þess að vinna afla með tapi. Við endurskoðun laganna var því lagt til að dregið yrði úr og fallið frá þessari kröfu og sú breyting var gerð hér á Alþingi í einu hljóði vorið 1996 og þar á meðal með samþykki hv. þm.

Af hálfu ráðuneytisins var hins vegar ákveðið að skipa sérstakan starfshóp til þess að kanna og meta hvort munur sé á raunnýtingu um borð í fullvinnsluskipum og þeirri nýtingu sem mælist við reglubundna sýnatöku og lögð er til grundvallar við útreikninga á nýtingu aflaheimilda fullvinnsluskipanna. Það er rétt hjá hv. ræðumanni að það skiptir mjög miklu máli að þær aðferðir sem við notum við að mæla afla frystiskipanna séu réttar því ef annað kemur á daginn þá er óeðlilegur mismunur á milli sjóvinnslu og landvinnslu. Skipaður var sérstakur starfshópur til að fara yfir þessi mál og hann lét Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins gera sérstaka skýrslu. Starfshópurinn skilaði niðurstöðu nú í haust þar sem lagt var til að áfram yrði byggt á þeim nýtingarstuðlum sem stuðst hefur verið við fram til þessa, en allt eftirlit stórkostlega aukið. Hópurinn lagði þannig til að ráðnir yrðu sérstakir eftirlitsmenn til að fylgjast með fullvinnsluskipum og eftirlitsmenn fari a.m.k. einu sinni á ári um borð í hvert skip og að í frekari mæli sé vakað yfir gögnum þannig að unnt sé að athuga skip sem skera sig úr og að auka eftirlit með sýnatöku.

Ráðuneytið hefur gefið Fiskistofu fyrirmæli um að auka eftirlitið og að því er stefnt að eftirlitsmenn verði a.m.k. í 1--2 veiðiferðum í hverju einasta skipi, að vinnu við vigtunarreglugerð sem hefur verið í endurskoðun verði hraðað og sérstaklega verði tekin út í þeirri vinnu sá kafli sem lýtur að vigtun afla og reikniaðferðum um borð í fullvinnsluskipum og að skoðaðar verði reglur um ísingarstuðla sem hafa verið notaðir við útreikning eða bakreikning á afla frystiskipanna. Þetta verkefni hefur verið vandlega unnið í þessum starfshóp og á grundvelli skýrslu Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og stefnt er að því að þetta aukna eftirlit komi til framkvæmda um næstu áramót.

Það er rétt að taka það fram hér hver breytingin hefur orðið í vinnslu fullvinnsluskipanna á undanförnum árum. Það er mjög mismunandi eftir tegundum og ef litið er á hlut vinnsluskipa í lönduðum afla af Íslandsmiðum, þá höfðu fullvinnsluskipin 12,8% af þorskvinnslunni 1990 en 14,9% árið 1996. Ef við horfum á ýsuna þá hefur aukningin verið heldur meiri, úr 13,8% í 19,8%. Ufsavinnslan hefur hins vegar minnkað úr 17,4% í 11,6%. Karfavinnslan hefur aukist úr 19,2% í 32% og grálúðuvinnslan úr 33% í 59%.

Meginbreytingarnar verða á árunum 1990--1993. Síðan 1993 hafa orðið tiltölulega litlar breytingar. Árið 1993 unnu frystiskipin eða fullvinnsluskipin 14,5% af þorskveiðiheimildunum en 14,9% 1996 þannig að tiltölulega litlar breytingar hafa orðið á allra síðustu árum.