1997-11-19 16:04:46# 122. lþ. 28.92 fundur 96#B rekstrargrundvöllur landvinnslu í samkeppni við sjóvinnslu um borð í frystiskipum# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[16:04]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að hreyfa þessu mikilvæga máli. Það er að sönnu áhyggjuefni hversu hnignun landvinnslunnar hefur verið hröð á síðustu árum og á það við í flestum þéttbýlisstöðum landsins.

Þegar ástæður þessa eru skoðaðar kemur margt til. Þar ber hæst að mínu áliti að rekstur frystihúsanna hefur ekki skilað arði. Það er meginatriðið. Það sem ræður því og hefur valdið þessari óheillaþróun varðandi landvinnsluna er mjög hækkað hráefnisverð sem hefur hækkað rekstrarkostnað vinnslunnar í þeim þættinum um 40--50% á síðustu tíu árum. Hvernig laga á þennan hluta vinnslunnar er svo flóknara mál og er ekki hægt að gera nema með einu móti í dag og það er að lækka hráefnisverðið aftur og það gerum við ekki nema með því að lækka laun sjómanna. Við erum því í mikilli sjálfheldu með það hvernig við ætlum að vinna upp landvinnsluna nema það komi innan frá eða frá landvinnslunni sjálfri með hagkvæmari rekstri og bættri markaðssetningu.

Það hefur að sjálfsögðu orðið mikil þróun í þeim efnum og þá fyrst og fremst í því að sérhæfa vinnsluna og að flytja meira af unninni vöru ófrosinni með flugi á markað. Það hefur reynst afskaplega vel og það er spurning, finnst mér, hvort ráðuneytið ætti að kanna þær leiðir betur hvort hægt sé að auka útflutning á ferskum fiski enn frekar en orðið hefur fram að þessu. Ég hygg að ef skoðuð eru fiskvinnsluhús á Suðurnesjum, þá hafa þau vaxið einna mest sem hafa getað í vinnslu sinni einbeitt sér á ferskfiskmarkaðinn.