Tilkynning um úrsögn úr þingflokki

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 10:33:35 (1452)

1997-11-20 10:33:35# 122. lþ. 30.91 fundur 97#B tilkynning um úrsögn úr þingflokki# (aths. um störf þingsins), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[10:33]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til að tilkynna þingheimi að ég hef sagt mig úr þingflokki Samtaka um kvennalista. Ég er ein þeirra kvenna sem upphaflega settust niður sumarið 1981 til að ræða hvort sérframboð kvenna til sveitarstjórna og síðar Alþingis væri fær leið til að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Við komumst að þeirri niðurstöðu eftir langar og strangar umræður að það bæri að feta í fótspor Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og Ingibjargar H. Bjarnason frá fyrstu áratugum aldarinnar og bjóða fram lista kvenna.

Við sem ræddum saman vildum tryggja að sjónarmið kvenna kæmust að þar sem ráðum er ráðið til þess fyrst og fremst að breyta áherslum, bæta stöðu kvenna og barna í þágu samfélagsins alls og breyta samfélaginu í átt til meiri jöfnuðar og réttlætis.

Kvennalistinn hefur átt fulltrúa á Alþingi í rúm 14 ár og hefur að mínum dómi haft veruleg áhrif bæði hvað varðar fjölgun kvenna á þingi og einnig málefni. Ég var varaþingkona á fyrsta kjörtímabilinu og hef nú setið á þingi fyrir Reykjavík í sex og hálft ár. Ég hef átt afar góða samvinnu við þingmenn stjórnarandstöðunnar allan þennan tíma, enda höfum við átt samleið í mjög mörgum málum og staðið þétt saman í baráttu við oft óbilgjarna ríkisstjórn. Samvinna er þó eitt, samruni annað.

Ég mun áfram tilheyra stjórnarandstöðunni og óska eftir góðu samstarfi við hana sem og aðra þingmenn en ég mun taka afstöðu út frá málefnum eins og ég hef ávallt gert.

Það er mér þungbært að ganga út úr húsi Kvennalistans eftir svo langa sambúð en það er um leið mikill léttir að ljúka þessum kafla lífs míns eftir erfitt lokaskeið. Ég hef eytt ómældum tíma og orku í starf mitt innan Kvennalistans og það hefur oft kostar persónulegar fórnir. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að vandlega íhuguðu máli að ég eigi ekki annarra kosta völ en að segja skilið við Kvennalistann.

Ég var kosin á þing sem fulltrúi hreyfingar sem, eins og segir í stefnuskrá Kvennalistans, er hvorki til hægri né vinstri og því ný vídd í íslenskum stjórnmálum. Ég var kjörin til að vera fulltrúi hreyfingar sem varð til sem andófsafl gegn gamla flokkakerfinu og vildi umbylta því, ekki samsamast því. Ég var kjörin til að tala máli kvenfrelsis, jöfnuðar, réttlætis, valddreifingar og lýðræðis. Ég var kjörin til að vera fulltrúi þeirra sem spyrja gagnrýninna spurninga, skoða og skilgreina upp á nýtt út frá sjónarhóli kvenna, þeirra sem ekki taka viðteknar hugmyndir góðar og gildar án frekari skoðunar.

Meiri hluti fulltrúa á landsfundi Kvennalistans um síðustu helgi samþykkti grundvallarstefnubreytingu sem ég er ósátt við. Hún er að mínum dómi söguleg mistök. Fundurinn samþykkti að stilla sér upp við hlið svokallaðra vinstri flokka í þeim viðræðum sem fram undan eru um málefnagrundvöll. Það er sjálfsagt að einstaklingar innan Kvennalistans gangi til liðs við gömlu flokkana kjósi þeir það, en það er ekki réttlætanlegt að mínum dómi að draga heila hreyfingu sem samanstendur af konum úr ýmsum áttum og með mismunandi lífsskoðanir inn í bandalag þeirra flokka sem nú skilgreina sig til vinstri hvað sem það svo þýðir. Við sameinuðumst á sínum tíma í kvennabaráttu og hún er hvorki til vinstri né hægri, hvað þá að hún verði skilgreind sem félagshyggja. Ég treysti mér ekki til að tala máli þessa nýja meiri hluta og ég get ekki setið hjá. Það er ekki minn stíll.

Sá Kvennalisti sem ég var kjörinn fulltrúi fyrir er ekki lengur til. Ég kýs því að vinna áfram að bættri stöðu kvenna utan flokka á þeim grunni sem ég var kjörin til hvað sem síðar verður.

Hæstv. forseti. Nú á ég mig sjálf.