1997-11-20 10:52:01# 122. lþ. 30.92 fundur 98#B framkvæmd ráðherra í ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar á 12. gr. jafnréttislaga# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[10:52]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég minni á það að fyrir þinginu liggur fyrirspurn sem ég hef flutt til hæstv. félmrh. um endurskoðun jafnréttislaga. Ég hafði vænst þess að það mál yrði tekið fyrir með þinglegum hætti en málið sem rætt er varðar eina grein jafnréttislaga, nr. 12 sem er sannarlega þess virði að rædd sé á Alþingi. Umræðan er því af mjög gildu tilefni. Ég undrast það sem kom fram hjá hæstv. forsrh. í sambandi við þetta mál að vera að afsaka það því að þessi lagagrein, 12. greinin, hefur ekki verið virt. Það er auðvitað með öllu óviðunandi. Að mínu mati er tekið skýrt til orða í þessari lagagrein að í stjórnum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka skuli sitja sem næst jafnmargar konur og karlar þar sem því verður við komið og skal ávallt á það minnt fortakslaust. Það er fortakslaust í lögunum og það gengur ekki að menn séu að líta á lagafyrirmæli sem frómar óskir og alveg sérstaklega á það við um opinbera aðila, ríki og sveitarfélög. Mér finnst það ekki hljóma vel á hv. Alþingi að verið sé með réttlætingar af þeim toga sem hafa komið fram um þetta efni.

Sjálfur átti ég sæti í þeirri nefnd sem endurskoðaði síðast lög um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Þetta var eitt af þeim nýju úrræðum sem þar var lagt til. Vissulega þurfa mörg fleiri til að koma. Það á ekki að fara eftir kynferði ráðherra hvort þeir virða lög. Ég get ekki tekið undir slík sjónarmið þó að ég hvetji eindregið til þess að við gerum allt sem verða má til að jafna stöðu kynjanna í sambandi við samfélagið í heild og úrræði af þeim toga sem kveðið er á um í jafnréttislögum eru góð og gild og þeim ber að framfylgja.