1997-11-20 10:57:12# 122. lþ. 30.92 fundur 98#B framkvæmd ráðherra í ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar á 12. gr. jafnréttislaga# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[10:57]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það var mikill áfangasigur í íslenskri kvennabaráttu þegar lögin um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna voru sett fyrir rúmlega 20 árum. Margir aðrir slíkir áfangar hafa fylgt á eftir, lagasetningar, ályktanir Alþingis, staðfesting alþjóðasamþykkta af ýmsu tagi sem allar stefna í þá einu átt að tryggja sjálfsögð mannréttindi, tryggja jafna stöðu kynjanna. En orð og efndir eru sitt hvað eins og dæmin sanna á svo augljósan hátt og eins og komið hefur fram í umræðunni. Ástæðan er einfaldlega skortur á pólitískum vilja.

Mörg fleiri dæmi mætti nefna en hafa verið rakin. Ég nefni eitt: Þingkonur í öllum þingflokkum hafa t.d. ítrekað reynt að styðja við bakið á konum í íþróttahreyfingunni. Við höfum fengið samþykktar ályktanir um könnun á stöðu kvenna á þeim vettvangi og aðgerðir til að rétta hlut þeirra, m.a. með því að tryggja að þær væru ekki afskiptar við úthlutun opinbers fjár.

Í svari við fyrirspurn minni um þetta efni nýlega kemur í ljós að vilja skortir af hálfu ráðherra að setja það skilyrði fyrir framlögum til íþrótta að þau skiptust hlutfallslega jafnt milli kynja sem væri eðlilegt með tilliti til lagasetningar um jafna stöðu kynjanna.

Mig furðar á því hvernig hæstv. forsrh. virðist láta sér í léttu rúmi liggja þá staðreynd að 12. gr. jafnréttislaganna skuli hafa verið svo lítils virt sem raun ber vitni en batnandi mönnum er best að lifa og vonandi hefur yfirlýsing hans áðan úrbætur í för með sér og vilji hæstv. félmrh. virðist ljós.

Herra forseti. Við höfum heil ósköp af lögum og samþykktum um þessi efni. Helsta viðfangsefni íslenskrar kvennabaráttu nú er að þrýsta á um framkvæmd skjalfestrar stefnu um jafnan rétt og jafna stöðu kynjanna.