1997-11-20 10:59:19# 122. lþ. 30.92 fundur 98#B framkvæmd ráðherra í ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar á 12. gr. jafnréttislaga# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[10:59]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Bara til að taka af allan vafa, ef hann væri í einhvers huga, þá vil ég taka fram út af orðum hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur að ég er ekki meðvituð kona, bara svo að það sé hreint. Ég er hins vegar meðvitaður um jafnrétti og ég reyni að hafa það í huga þegar ég skipa í nefndir. Eins og kom fram og hefur reyndar verið vitnað til í máli hv. málshefjanda þá hefur verið 40% hlutfall kvenna í þeim nefndum sem ég hef skipað sem félmrh. þegar talið var í fyrravetur eða fyrravor.

Eftir örfáa daga vænti ég þess að leggja fyrir þingið endurskoðaða jafnréttisáætlun. Mjög mikil vinna hefur verið lögð í þessa jafnréttisáætlun. Ég hafði farið ásamt með formanni Jafnréttisráðs og framkvæmdarstjóra Jafnréttisráðs og fólki úr félmrn. á fundi í öllum kjördæmum landsins til þess að ræða endurskoðun jafnréttisáætlunarinnar eða undirbúa hana til þess að safna hugmyndum sem víðast af landinu og til þess að víkka umræðuna, til þess að reyna að koma af stað umræðu um þennan mikilvæga málaflokk hvarvetna um land. Ég held að það hafi tekist, þessir fundir tókust yfirleitt vel og ég vænti þess að ný jafnréttisáætlun beri þess merki að undirbúningsvinnan var unnin. Ég vænti þess, herra forseti, að í vetur getum við á grundvelli jafnréttisáætlunar við meðferð málsins hér á landi átt líflegar umræður um þann málaflokk og gagnlegar og málefnalegar.

Ég hef enn fremur reynt að sækja þá fundi sem jafnréttisráðherrar á Norðurlöndum hafa efnt til og reyndar farið til Eystrasaltslanda sem fulltrúi norrænna jafnréttisráðherra. Afar fróðlegt hefur verið að vinna að þessum málaflokki og kynnast þeim sjónarmiðum sem þar hafa verið á baugi og alltaf víkkar sjóndeildarhringurinn svolítið við hvern slíkan fund.