Framtíðarskipan raforkumála

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 11:41:17 (1470)

1997-11-20 11:41:17# 122. lþ. 30.2 fundur 227. mál: #A framtíðarskipan raforkumála# þál., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[11:41]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Satt að segja kann ég ekki að meta þennan skæting sem kemur einlægt upp hjá hæstv. iðnrh. þegar við erum að tala um orkumál. Auðvitað er það þannig með þann þingmann sem hér stendur að hann vill láta taka sig alvarlega og það geri ég ráð fyrir því að ráðherrann vilji líka, málið snýst ekki um það.

Veruleikinn er sá að í tillögunni sjálfri er hvergi minnst á jöfnun orkuverðs. Í tillögunni sjálfri er hvergi minnst á jöfnun orkuverðs sem forsendu endurskipulagningar raforkumála á Íslandi. Það er hvergi minnst á það einu einasta orði og þó að hann geti fundið einhverja aukasetningu í greinargerðinni neðst á bls. 4 breytir það engu í málinu að jöfnun orkuverðs er aukaatriði að mati hæstv. iðnrh. í þessu máli. Það er mjög alvarlegur hlutur. Ég er ekki að segja að hæstv. iðnrh. sé þar með endilega á móti því að taka upp jöfnun orkuverðs og ég er ekki heldur að segja að hann vilji ekki láta taka sig alvarlega og ég er heldur ekki að segja að hann vilji ekki beita sér fyrir því þegar kemur að meðferð málsins í iðnn. að jöfnun orkuverðs verði tekin upp sem markmið endurskipulagningarinnar. En ég er að segja að í tillögunni eins og hún kemur fram frá stjórnarflokkunum er ekki minnst á þetta mál. Það er líka ljóst, herra forseti, af öllu uppleggi málsins að misjafnt orkuverð er undirstaða hugmyndafræðinnar því að það er talað um samkeppni og aftur samkeppni í fimmtu hverri línu sem þýðir að orkuverðið verður að vera misjafnt. Hverjir ætli verði þá látnir borga hátt orkuverð og hverjir lágt? Auðvitað liggur það í augum uppi þannig að hugmyndafræði sem hér er verið að setja fram í tillögunni bendir til þess að ráðherrann vilji að orkuverð verði misjafnt en ég áskil honum fyrir hans hönd allan rétt til þess að það verði tekið á málinu við meðferð málsins í hv. iðnn. en eins og málið liggur hér fyrir er þetta hreinræktuð hægri pólitík í orkumálum og ekkert annað.