Framtíðarskipan raforkumála

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 11:43:32 (1471)

1997-11-20 11:43:32# 122. lþ. 30.2 fundur 227. mál: #A framtíðarskipan raforkumála# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[11:43]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að hv. þm. sé með till. til þál. um framtíðarskipan raforkumála. Hún liggur fyrir á þskj. 259 og það sem ég var að vitna í er í þáltill. í greinargerð hennar og þær áherslur koma þar fram sem iðnrh. og ríkisstjórnin vill hafa í þessum efnum.

Varðandi það sem hv. þm. kom inn á í fyrri ræðu sinni um hækkun orkuverðs Landsvirkjunar er alveg hárrétt hjá hv. þm. að gengið er út frá því þegar sameignarsamningur Landsvirkjunar verður endurskoðaður milli Reykjavíkurborgar, Akureyrarbæjar og ríkisins að orkuverð mundi hækka í samræmi við verðhækkanir fram til ársins 2000 þannig að þær héldust óbreyttar að raungildi. En síðan lækki þær að raungildi árið 2001--2010 um 2--3%. Í samræmi við þetta markmið hækkaði Landsvirkjun gjaldskrá sína um 3,2% 1. apríl 1997 sem svarar til hækkunar á meðalverðlagi 1996 til ársins 1997 á mælikvarða byggingarvísitölu.

Hverjir skyldu hafa tekið þátt í þessari afgreiðslu, 3,2% hækkuninni? Á þeim fundi var hv. þm. Svavar Gestsson og greiddi atkvæði með hækkuninni, auðvitað í samræmi við samkomulagið sem búið var að gera og þannig stóð þingmaðurinn að því að virða samkomulagið. Af því að hv. þm. er nú kominn út úr stjórn Landsvirkjunar er orðið forgangsverkefni að nú eigi að brjóta það allt saman niður og snúa hlutunum við. Hv. þm. stóð að 3,2% hækkun orkuverðs á vegum Landsvirkjunar fyrir 1. apríl 1997.