Framtíðarskipan raforkumála

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 12:19:45 (1480)

1997-11-20 12:19:45# 122. lþ. 30.2 fundur 227. mál: #A framtíðarskipan raforkumála# þál., GL
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[12:19]

Guðmundur Lárusson:

Herra forseti. Hér er mjög stórt mál á ferð og því eðlilegt að menn vilji fjalla nokkuð um það því að ný stefna hlýtur að hafa bæði kosti og galla og ekki er hægt að leggja slíka stefnu fram án þess að gera sér grein fyrir bæði kostum og göllum hennar. Kostir stefnunnar eru augljóslega þeir að eðlileg samkeppni hlýtur að vera af hinu góða og það er sjálfsagt og eðlilegt að slík samkeppni eigi sér stað en samkeppnin hefur líka sína fylgifiska og þá fylgifiska eigum við að viðurkenna og við eigum ekkert að reyna að halda öðru fram en að einhverjir fylgifiskar séu með slíkri stefnu. Mér finnst því beinlínis rangt af hæstv. iðnrh. að halda því fram að þar sé verið að tala um jöfnun orkuverðs. Auðvitað er misjafnt orkuverð fylgifiskur þessarar einkaðaðildar og eins og hv. þm. Svavar Gestsson sagði er ekki eitt einasta orð um jöfnun orkuverðs í þáltill. sjálfri. Ég get ekki skilið þau orð sem standa neðst á bls. 4 öðruvísi en svo, með leyfi herra forseta, en að móta þurfi stefnu um hvort verðjöfnun á raforku skuli eiga sér stað.

Í þessu sambandi má benda á að við gerð gjaldskrár má sjá til þess að meginflutningskerfið eða landsnetið taki við því hlutverki sem Landsvirkjun hefur. Það segir ekkert um að verðjöfnun á orkuverði til neytandans skuli eiga sér stað, alls ekki, enda er þetta sjálfsagður og eðlilegur fylgifiskur blindrar samkeppni. Með sama hætti finnst mér að ekki sé hægt að leggja fram slíka stefnu örðuvísi en að gera sér grein fyrir því að þegar búið er að einkavæða bæði virkjanir og dreifinet þarf að sjálfsögðu að hugsa það mál alveg upp á nýtt gagnvart landeigendum. Bæði er það varðandi árnar og vötnin sem eru virkjuð og eins löndin sem línurnar liggja um. Ekki er lengur hægt að tala um að verið sé að virkja í þágu þjóðarinnar þegar einkafyrirtæki eiga hlut að máli og þess vegna verður að ræða sérstaklega hvernig staðið verði að samningum og framkomu við landeigendur þar sem virkjun er reist eða þar sem línur liggja um land þeirra. Það er alveg ljóst að þá duga ekki lengur þau bolabrögð sem Landsvirkjun beitir landeigendur núna gagnvart lagningu línu sem þekkt er orðið.

Ekki er heldur hægt að móta framtíðarstefnu um raforkumál án þess að fjalla mjög ítarlega um umhverfisþáttinn og þess sakna ég mjög úr plagginu að það er nánast ekki vikið neinu orði að umhverfismálum.

Þessa þætti, herra forseti, vildi ég gera að umtalsefni því að ég tel útilokað annað en að þeir þurfi að koma fram við umræðuna og vænti þess að í næstu framtíð þegar verður farið að móta þessa stefnu nánar verði tekið tillit til þessara þátta.