Framtíðarskipan raforkumála

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 12:32:30 (1482)

1997-11-20 12:32:30# 122. lþ. 30.2 fundur 227. mál: #A framtíðarskipan raforkumála# þál., SighB
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[12:32]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Við erum að ræða eitt þýðingarmesta viðfangsefni íslenskra stjórnmála, Alþingis og stjórnvalda, þ.e. framtíðarskipan raforkumála vegna þess að þær orkulindir sem við eigum eftir að mestu ónýttar eru að svipuðu verðgildi ef skoðað er líklegt verðlag á sölu orku frá virkjanavegg eins og allur fiskurinn í íslenskri efnahagslögsögu. Það skýtur því heldur skökku við, herra forseti, að skipan mála á Alþingi skuli vera með þeim hætti að þingmönnum er ætlað að ræða þessi mikilvægu mál í átta mínútna ræðutíma. Ég vildi gjarnan skjóta því til hæstv. forseta hvort ekki væri ástæða til fyrir forsætisnefnd að skoða betur hvort ekki væri hægt að gefa Alþingi greiðari tíma til að ræða jafnmikilvæg mál en þær átta mínútur sem menn hafa hér til umráða sem þýða það að menn komast ekki einu sinni að kjarna málsins, hvað þá heldur að þeir hafi tíma til þess að ræða hann.

Þær athugasemdir sem ég hef við þetta mál eru í fyrsta lagi formið. Hæstv. ráðherra leggur fyrir Alþingi till. til þál. þar sem hann óskar eftir að Alþingi skori á sig að gera það sem hann ætlar sér að gera. Svona málatilbúnaður finnst mér vera út í hött, þ.e. að ráðherra hefur einhverja tiltekna stefnu sem hann ætlar sér að vinna eftir og ráðherra leiti síðan til Alþingis og biðji Alþingi um að skora á sig að framfylgja þeirri stefnu sem hann hvort sem er ætlar sér að framkvæma. Slík áskorun hefur nákvæmlega ekkert gildi og enn síður þegar um er að ræða jafnlosaralegan texta eins og finnst í þessari þáltill. þar sem hægt er að túlka hverja grein nánast með þeim hætti sem ráðherra kýs auk þess sem afgreiðsla Alþingis á þáltill. hefur nákvæmlega ekkert gildi. Það hvorki skuldbindur Alþingi til þess að samþykkja þau frumvörp sem fram verða lögð á Alþingi af hálfu hæstv. ráðherra og hann túlkar að séu í samræmi við einhvern vilja Alþingis í þáltill. né heldur bindur það framkvæmdarvaldið því að hæstv. ráðherra getur þrátt fyrir slíka samþykkt hagað sér í skipulagsmálum eins og honum dettur í hug, svo maður tali nú ekki um þá ráðherra sem eiga eftir að taka við af honum. Formið á málinu, þ.e. hvernig það er flutt til Alþingis, finnst mér vera út í hött. Það hefði verið nær að hæstv. ráðherra gerði Alþingi grein fyrir þeim hugmyndum í skýrslu eða hvítbók sem hann hefur um breytingu á framtíðarskipan raforkumála og menn gætu síðan rætt við hann um þá skýrslu. Það væri eðlilegri málsmeðferð að mínu mati.

Í öðru lagi sagði ég áðan um einstök efnisatriði að margt í þessari tillögu væri mjög óskýrt, þ.e. hún skýrir ekki fyrir Alþingi hver er afstaða ráðherrans gagnvart mörgum lykilspurningum sem upp koma. Ef við lítum t.d. á lið 5, þá segir svo, með leyfi forseta:

,,Að kanna nýjar leiðir til nýtingar orkulindanna til atvinnuuppbyggingar og undirbúa að í samningum um nýja stóriðju verði laðað fram aukið eigið fé til vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu raforku.``

Ég spyr hæstv. ráðherra: Ber að túlka þá víðtæku heimild, sem þarna er leitað eftir, svo að hæstv. ráðherra telji sig vera búinn að fá heimild Alþingis til þess að hefja nú þegar viðræður við erlenda aðila sem kannski hafa áhuga á því að fjárfesta í stóriðju hér á landi, þeir tækju þátt í því eða kannski sjái alfarið um virkjanir sem þarf að framkvæma vegna stóriðjuáforma? Telur hæstv. ráðherra að Alþingi sé að veita sér heimild til þess með þeirri samþykkt sem hæstv. ráðherra mundi ella leggja fram í formi lagafrv. við eðlilegar aðstæður?

Þá eru mörg fleiri þýðingarmikil atriði óskýrð í þáltill., t.d. það atriði að þegar tilskipun Evrópusambandsins um skipan raforkumála tekur gildi, þá hefur hæstv. ráðherra um tvær leiðir að velja sem hann þarf að fá staðfestingu á hjá Alþingi. Annars vegar sú leið að hann skilgreini raforkuþörf landsins til einhverra ára, 10 ára skulum við segja, og ákvæði síðan að bjóða út virkjanaheimildir í samræmi við þessa skilgreininginu þannig að þau fyrirtæki sem uppfylla tiltekin skilyrði hafi jafnan rétt til að keppa á þeim útboðsmarkaði um að byggja og reka raforkuvirki. Þetta er önnur leiðin sem hæstv. ráðherra getur valið.

Hin leiðin er sú að lýsa markaðinn opinn, gera ekki út af fyrir sig neinar staðfestar raforkuspár heldur segja einfaldlega: Öllum þeim fyrirtækjum sem uppfylla tiltekin skilyrði er heimilt að virkja fallvötn á Íslandi á eigin áhættu án frekari afskipta ríkisins. Í greinargerð með tillögunni eru nefndar báðar þessar útfærsluaðferðir en í tillögunni er ekki tekin afstaða til annarrar hvorrar útfærslunnar og því segi ég að ástæða væri til þess að hæstv. ráðherra greindi frá a.m.k. sinni skoðun á því eftir hvorri leiðinni hann hyggst undirbúa frv. til að leggja fyrir Alþingi.

Þá er líka ástæða til að benda á að það er ekki gert ráð fyrir því í þáltill. að við þessar nýju samkeppnisaðstæður um virkjanir fallvatna á Íslandi komi nein greiðsla frá virkjunaraðilum til þjóðarinnar fyrir nýtingu auðlinda í hennar eigu, þ.e. það er ekki neitt í þáltill. sem segir til um það hvort hæstv. ráðherra hyggst framkvæma málið með þeim hætti í heimi frjálsrar og opinnar samkeppni um raforkuvirkjun á Íslandi að gert sé ráð fyrir því að þjóðin fái í sinn hlut einhverja hlutdeild af þeim arði sem myndast við nýtingu þeirrar sameiginlegu auðlindar í formi einhvers konar auðlindagjalds fyrir raforku.

Þá má einnig víkja að því að mjög óskýr ákvæði eru í þáltill. um umhverfismál en eitt af því þýðingarmesta sem þarf að gera í nánustu framtíð er að gera áætlun eða áform um með hvaða hætti skuli virkja nýtanlegt vatnsafl á Íslandi og taka ákvörðun um það hvaða almennu reglur skuli gilda um hvenær umhverfisaðstæður komi í veg fyrir að tæknilega nýtanleg vatnsorka verði virkjuð og hvenær ekki. Þess sakna ég í þessari tillögu.

Þá má nefna að ekki eru gefin nein fyrirheit um það í tillögunni sjálfri eða því lýst hvernig eigi að tryggja verðjöfnun á raforku eftir að búið er að skilja í sundur, eins og ég tel rétt að gera, söluna til neytenda og flutning um landsnet. Það er að vísu sagt í grg. með tillögunni að þau verðjöfnunarmál yrði þá væntanlega að leysa á grundvelli landsnetsins þannig að verðjöfnunarhlutverkið væri þess, en því er ekkert nánar lýst hvernig það yrði framkvæmt eða hvernig sú verðjöfnun yrði tryggð.

Þá mætti einnig spyrja ráðherra sérstaklega um málefni sæstrengs sem vikið er að seint í þáltill. en, virðulegi forseti, þessar átta mínútur eru búnar þannig að á þessum tíma, átta mínútum, hef ég neyðst til þess að drepa á aðeins örfáum atriðum í þessu stóra máli sem full ástæða væri til að gefa meiri tíma en gefinn er hér við þessa umræðu.