Framtíðarskipan raforkumála

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 13:06:50 (1490)

1997-11-20 13:06:50# 122. lþ. 30.2 fundur 227. mál: #A framtíðarskipan raforkumála# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[13:06]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ljóst er að samstaða virðist vera áfram um það að breytingar sem menn hafa uppi eða hugmyndir um breytingar eigi ekki að leiða til gjaldskrárhækkunar. Það er rétt að það liggi alveg skýrt fyrir að það er ekki vilji eða ætlun eigenda, hvorki ríkis né sveitarfélaga. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir að staðfesta það fyrir sitt leyti.

Í dag er rekstrarreikningur Orkubúsins gerður upp með umtalsverðu tapi en það byggist á því mati sem menn nota í dag á afskriftum eigna fyrirtækisins, einkum virkjana. Leidd hafa verið leidd að því nokkuð gild rök að afskriftirnar séu miklu meiri en nemur úreldingu þeirra af notkun á ári hverju, bæði þar sem lífaldur eða endingartíminn er miklu meiri en sem nemur þeim tíma sem afskriftarprósentan grundvallast á og hinu að virkjunum og dreifikerfi er mjög vel við haldið hvert ár og allur sá viðhaldskostnaður er færður í gegnum rekstrarreikning. Menn hafa fært að því rök að væri tekið tillit til þess þá væri um að ræða mjög arðbæran rekstur að óbreyttri gjaldskrá. Það gefur fyrirtækinu töluvert verðgildi ef þær forsendur, sem ég er að rekja að menn hafi rökstutt, eigi töluvert til síns máls, þá er rekstur fyrirtækisins með töluverðum hagnaði og þá er þetta áhugavert fyrirtæki fyrir fjárfesta eða ríkissjóð að eiga. Mér finnst að það gæti komið vel til álita að ríkissjóður eignist fyrirtækið allt til þess að auðvelda mönnum að hrinda í framkvæmd breytingum á orkustefnu ríkissjóðs. Mér sýnist málið liggja þannig og þess vegna finnst mér að menn eigi ekki að loka neinum dyrum í þeim efnum að taka upp viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um kaup ríkissjóðs á hlut sveitarfélaganna í Orkubúinu.