Framtíðarskipan raforkumála

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 13:50:29 (1493)

1997-11-20 13:50:29# 122. lþ. 31.2 fundur 227. mál: #A framtíðarskipan raforkumála# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur

[13:50]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í morgun fór fram umræða um till. til þál. um framtíðarskipan raforkumála og gagnrýni okkar á þessa tillögu hefur að mínu mati verið aðallega þríþætt. Í fyrsta lagi sú að í tillögunni er ekkert fjallað um umhverfisforsendur orkunýtingar, þ.e. sjálfbæra orkunýtingarstefnu eins og mætti kalla hana. Í öðru lagi er ekki fjallað á neinn hátt í tillögunni um jöfnun orkuverðs sem við teljum vera grundvallaratriði í nálgun þessara mála, þ.e. að menn miði við það að verðlag á raforku verði sem jafnast. Í þriðja lagi hefur verið bent á það af hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að tillagan sé með þeim hætti að ekkert sé í henni sem ráðherrann geti ekki gert og tekið ákvörðun um án atbeina Alþingis. Hér um það að ræða að ráðherrann leggur fram tillögu til Alþingis um að skora á sama ráðherra að gera það sem hann þó getur gert án tillögunnar. Hæstv. iðnrh. hefur ekki mótmælt þessum ábendingum og hefur tekið undir það að eðlilegt sé að hv. iðnn. taki þessa tillögu til rækilegrar skoðunar og það er alveg augljóst mál, eins og þegar hefur komið fram hjá talsmönnum tveggja þingflokka, að tillagan getur ekki farið í gegnum þingið óbreytt. Það verður að breyta henni. Það hefur líka komið fram, m.a. í máli hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar, að stjórnarliðar leggja mikla áherslu á það að jöfnun orkuverðs verði eitt af þeim meginmarkmiðum sem við verði miðað við endurskipulagningu raforkumála og raforkukerfisins í landinu.

Herra forseti. Ég vil fara yfir nokkur efnisatriði sem ég teldi að ættu að vera í tillögu af þessu tagi. Í fyrsta lagi að tryggja að við raforkuframleiðslu verði alltaf valin sú leið sem er hagstæðust fyrir umhverfið, þ.e. sjálfbær orkunýtingarstefna. Í öðru lagi að verðjöfnun verði grundvallaratriði allra ákvarðana í orkumálum. Í þriðja lagi að verð á raforku á Íslandi verði eins lágt og kostur er og helst lægra en gerist í grannlöndum okkar. Með þessu er ég að segja að við eigum að hagnýta okkur þá kosti sem orkubúskapurinn getur skapað fyrir batnandi lífskjör á Íslandi. Íslendingar búa fjarri markaði við erfið náttúrufarsskilyrði að mörgu leyti. Eitt af því sem gæti bætt upp þessi erfiðu náttúrufarsskilyrði Íslendinga er hagstætt verð á orku og orkulindirnar. Í fjórða lagi að verð á raforku til stóriðju verði alltaf látið bera umhverfiskostnað af stóriðjunni. Í fimmta lagi að verð til almennings verði aldrei látið bera kostnað af orkusölu til stóriðju og að það verði tryggt í skipulagi orkumála að um verulegt afhendingaröryggi verði að ræða, ekki minna en það sem nú er. Síðan að nýttir verði vistvænir mengunarlausir orkugjafar fremur en lífrænt eldsneyti þar sem þess er kostur og að allt verði gert sem unnt er til þess að spara orku.

Um alla þessa þætti á að vera hægt að ná samstöðu í þessari stofnun. Ég tel að við stöndum frammi fyrir það miklum breytingum í orkumálum á næstu árum og áratugum að skynsamlegt sé að reyna að ná eins víðtækri samstöðu og mögulegt er um markmiðsetningu næstu ára og áratuga.

Ég tel að tillagan, eins og hún liggur fyrir frá hæstv. iðnaðar- og orkumálaráðherra dugi engan veginn í þessum efnum af því þar vantar bæði verðjöfnun á raforku og þar vantar líka umhverfisþáttinn inn í myndina. En vafalaust má fara yfir málið í hv. iðnn. með hliðsjón af því að menn reyni að knýja fram breytingar í átt við það sem við höfum verið að tala um í morgun.

Þetta vildi ég segja, herra forseti, og bæta því við það sem ég sagði í morgun um einstök atriði um þessa tillögu en ætla síðan að víkja að ýmsum öðrum atriðum og fyrst því að aftur og aftur hefur hæstv. iðnrh. haldið því fram að Alþingi ætti að taka afstöðu til greinargerðarinnar. Reyndar tók hann þannig til orða í morgun að Alþingi hlyti að taka afstöðu til allra gagna í málinu sem væru hluti af þáltill. Þar með væri allt þingskjalið hluti af tillögunni. Eins og kunnugt er það ekki svo. Hæstv. ráðherra hefur verið svo vinsamlegur að leiðrétta sig í þessum efnum og hefur viðurkennt að þetta sé rangt hjá sér, og ég þakka honum fyrir það, og hefur jafnframt bent á að eitthvað af þeim atriðum sem hann vill gjarnan hafa í till. en eru í grg. mætti flytja í till. Ég tek undir það, ég tel að eigi að flytja þau atriði inn í till. Ég segi hins vegar að þau ákvæði sem eru í grg. um verðjöfnun, neðst á bls. 4, eru of veik. Hér stendur, með leyfi forseta:

,,Samhliða undirbúningi að breyttu fyrirkomulagi á flutningi raforku um meginflutningskerfið þarf að móta stefnu um hvort verðjöfnun á raforku skuli eiga sér stað innan meginflutningskerfisins eða utan þess. Í þessu sambandi má benda á að við gerð gjaldskrár má sjá til þess að meginflutningskerfið eða Landsnetið taki við því hlutverki sem Landsvirkjun hefur nú varðandi jöfnun orkuverðs.``

Ég er þeirrar skoðunar að um sé að ræða allt of óljósa nálgun á þessu máli og þess vegna verði að kveða miklu skýrar að orði í hinni endanlegu afgreiðslu Alþingis á málinu en gerð er tillaga um og kemur fram í þessari grg. sem er samt ekki hluti af tillögunni og fer því víðs fjarri.

Í annan stað vík ég svo að því sem hæstv. iðnrh. dró inn í myndina, þ.e. hækkun raforkuverðs frá Landsvirkjun --- nú er Landsvirkun að hækka eins og menn vita. Landsvirkjun er aðallega að hækka til þess að geta borgað eigendum arð. Hún er ekki að hækka af neinum öðrum ástæðum. Ef þessi arðkrafa væri ekki komin á Landsvirkjun eins og ákveðið var í fyrra þyrfti ekki að hækka. Afstaða mín, og fleiri manna í þessum sal í stjórn Landsvirkunar, var sú að það ætti að hefja verðlækkunarferlið fyrr en árið 2000 eða 2001. Við vorum þeirrar skoðunar að ekki væri ástæða til að bíða eftir því til aldamóta að hefja raunverðslækkun á raforku. Það var hins vegar afstaða ráðherrans að knýja það fram að með þessum eigendasamningum væri Landsvirkjun nauðbeygð til þess eftir ákvörðun Alþingis, í lögum sem voru samþykkt í fyrra --- og við greiddum sum atkvæði á móti, a.m.k. ég --- að Alþingi setti Landsvirkjun í þá bóndabeygju að neyðast til að hækka. Fyrri hækkanir sem voru ákveðnar í minni tíð í stjórn Landsvirkjunar með samhljóða atkvæðum --- þar er um að ræða eina hækkun. Hún var ákveðin eftir mjög ítarlega yfirferð á grundvelli þeirra forsendna sem lágu fyrir að mati Þjóðhagsstofnunar og þar var ekki um það að ræða að menn væru að uppfylla kröfur eigendasamkomulagsins um verðhækkanir. Það er því útúrsnúningur hjá hæstv. ráðherra að draga það inn í þetta mál. Ég endurtek áskorun mína á hann að knýja Landsvirkjun til að kalla til baka þá verðhækkun sem Landsvirkjun hefur verið að tilkynna síðustu sólarhringana.