Verðbréfaviðskipti

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 14:16:57 (1499)

1997-11-20 14:16:57# 122. lþ. 31.4 fundur 286. mál: #A verðbréfaviðskipti# frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur

[14:16]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti. Frv. er flutt í tengslum við frv. til laga um starfsemi kauphalla og skipulag tilboðsmarkaða sem ég mælti áðan fyrir.

Frv. er einungis þrjár greinar. Í 1. gr. er lagt til að gerð verði nauðsynleg orðalagsbreyting á a-lið 10. tölul. 2. gr. laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti.

Í 2. gr. frv. er tillaga gerð um að samræma ákvæði sem er að finna í 1. tölul. 3. gr. í samsvarandi ákvæði í frv. til laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Um er að ræða ákvæði sem fjalla um lágmarkshlutafé verðbréfafyrirtækja.

Loks er í 3. gr. lagt til að ákvæði IV. kafla laga um verðbréfaviðskipti sem fjalla um meðferð trúnaðarupplýsinga skuli ekki taka til þeirra viðskipta sem fram fara með verðbréf sem skráð eru á Verðbréfaþingi Íslands heldur skulu þau framvegis taka til allra verðbréfasviðskipta sem fara fram á verðbréfamarkaðnum. Mikilvægt er að ákvæði um þetta, eins og innherjaviðskipti, gildi um öll viðskipti sem eiga sér stað á verðbréfamarkaðnum og er þetta þýðingarmikið atriði til þess að viðskipti á verðbréfamarkaði njóti fullkomins trausts af hálfu fjárfesta.

Herra forseti. Ég hef lokið umfjöllun minni um meginefni frv. og legg til að málinu verði vísað til hv. efh.- og viðskn. að lokinni umræðunni.