Úttekt á fjárhagsvanda Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 14:31:26 (1503)

1997-11-20 14:31:26# 122. lþ. 31.7 fundur 270. mál: #A úttekt á fjárhagsvanda Háskóla Íslands# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur

[14:31]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka flm., hv. þm. Arnþrúði Karlsdóttur, fyrir að flytja till. til þál. um úttekt á fjárhagsvanda Háskóla Íslands og gerð áætlunar til stuðnings rannsókna- og vísindastarfsemi háskólans.

Við sem sitjum í menntmn. höfum hlýtt á fulltrúa háskólans lýsa ástandinu og mér fannst fyrsti flm. lýsa þessu mjög vel áðan og ætla ekki að endurtaka það. Það er mikil hætta á að missa gott starfsfólk frá háskólanum vegna lágra launa og þessi sveltistefna heldur þróun háskólans í ákveðinni spennitreyju sem verður að breyta.

Þetta er þriðja mitt þing í röð og mér finnst athyglisvert að sjá hvernig hlutirnir endurtaka sig. Það er alveg sama með Háskóla Íslands og spítalana að þegar komið er að hausti vantar nokkur hundruð milljónir og einungis 50--60 eru settar upp í og áfram herðist spennitreyjan.

Flutningsmaður vitnaði áðan í skýrslu OECD, sem ég hef sjálf vitnað nokkrum sinnum til, og þar er mjög sláandi að sjá hvað við erum aftarlega á merinni varðandi fjárveitingar til háskólastarfsemi. Þetta er verulegt áhyggjuefni, ekki síst vegna þess að við erum núna u.þ.b. að lögfesta rammalöggjöf um háskólastigið þar sem stofna á marga nýja háskóla á Íslandi. Reyndar gerir það frv. ráð fyrir því að ekki verði allir þeir nýju háskólar, sem eiga að koma til, rannsóknaháskólar sem eru vissulega mun dýrari og eru kannski samkvæmt sumra skilgreiningu hinir einu sönnu háskólar. Reynslan sýnir okkur bæði frá Bretlandi, Svíþjóð og í flestum nágrannalöndum að háskólar, sem byrja sem kennsluháskólar, þrýsta á um að fá sömu réttindi og sams konar starfsemi og eiginlegir akademískir háskólar.

Ég hef verið stuðningsmaður þess að Kennaraháskóli Íslands, og þá hinn nýi uppeldisháskóli, verði rannsóknaháskóli og styð þann skóla í kröfum sínum um bætt kjör. Ég hef einnig verið stuðningsmaður Háskólans á Akureyri og tel að hann gegni mjög mikilvægu hlutverki en þessi þróun má ekki verða til þess að enn eigi að herða að Háskóla Íslands. Ég tek undir orð hv. flm. áðan um að við erum meðal ríkustu þjóða heims, ef miðað er við þjóðartekjur á mann, og við eigum að leggja mun meira til æðri menntunar, ekki síst núna þegar atvinnulíf okkar er allt of einhæft og byggist allt of mikið á einni auðlind en ekki á hugarkrafti og því sem menntun veitir fólki. Þess vegna vil ég taka undir efni tillögunnar. Ég held að það sé óskaplega mikilvægt að gerð verði áætlun til langframa þannig að háskólinn geti skipulagt sig til lengri tíma en eins árs í senn og að það verði mögulegt að byggja upp framhaldsnám, eins og stefna háskólans er núna, ekki síst vegna þess að það er lífakkeri rannsókna og tryggir að kennarar haldi sér við og að raunveruleg akademísk starfsemi eigi sér stað.

Ég tek einnig undir orð flm. um skólagjöld. Þessi umræða hefur verið nokkuð í gangi á milli hæstv. menntmrh. og forsvarsmanna háskólans. Það var mjög athyglisvert þegar núv. rektor var kjörinn að þá lýsti hann því yfir að hann væri mótfallinn skólagjöldum. Menntmrh. lýsir því yfir að það frv. sem liggi nú fyrir til háskólalaga segi ekkert um skólagjöld, reyndar er heimild fyrir að setja slík gjöld á en síðan getur hvor vísað á annan. Rektorinn segir: Ef við fáum ekki meiri pening verðum við að leggja á skólagjöld og ráðherrann segir: Ef þið fáið ekki meiri pening leggið þið bara á skólagjöld. Það er því ekki nema von að stúdentar séu orðnir þreyttir á umræðunni. Það hefur verið reynslan hér, þegar skráningargjöldin voru sett á, þ.e. hækkuð úr 5 þús. kr. í 37 eða 40 þús. kr., að það kom ekki fram í auknum fjárveitingum til Háskóla Íslands heldur var dregið úr fjárveitingunum sem því nam. Sama hefur gerst í Bretlandi þar sem skólagjöld hafa verið, þetta hefur gerst sem nauðvörn vegna þess að skólarnir hafa verið í svelti. Menntmrh. hefur sagt á Alþingi að í skýrslu OECD sé mælt með skólagjöldum sem leið fyrir háskólastigið til þess að fá aukið fé. Það er nefnt þar en vissulega er aðalatriðið að aukið fé fari til háskólans.

Ég tel mjög mikilvægt að jafnrétti til náms verði áfram sem virkast í landinu og að við eflum Lánasjóð íslenskra námsmanna og einnig er ég flm. að tillögu um styrktarsjóð fyrir efnilega námsmenn. Með öðrum orðum held ég að við Íslendingar verðum að hugsa verulega mikið um að efla háskólastig okkar. Tillagan getur orðið liður í því og kannski um leið áminning um, þar sem varaþingmaður Framsfl. flytur hana, að stefnan sem núv. stjórnvöld reka varðandi málefni Háskóla Íslands og háskólastigsins er ekki nógu góð. Vonandi verður þáltill. samþykkt þannig að fyrir liggi stefnumörkun sem býr Háskóla Íslands betri framtíð.