Fangelsi og fangavist

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 14:42:06 (1505)

1997-11-20 14:42:06# 122. lþ. 31.5 fundur 291. mál: #A fangelsi og fangavist# (heilbrigðisþjónusta, vistun gæsluvarðhaldsfanga og samfélagsþjónusta) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur

[14:42]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um fangelsi og fangavist.

Meginefni frv. er þríþætt. Lagt er til að ákvæðum laganna verði breytt svo að ábyrgð á heilbrigðisþjónustu við fanga í fangelsum færist frá Fangelsismálastofnun til heilbr.- og trmrn., að starfrækja megi gæsluvarðhaldsdeildir í afplánunarfangelsum og að ákvæði laga um samfélagsþjónustu verði felld inn í lögin um fangelsi og fangavist auk nokkurra efnisbreytinga á þeim ákvæðum.

Í 1. gr. frv. er lagt til að 2. gr. laga um fangelsi og fangavist verði breytt svo að heilbrigðisþjónusta verði ekki lengur talin meðal sérstakra verkefna Fangelsismálastofnunar heldur tilgreint að fangar skuli njóta sambærilegrar heilbrigðisþjónustu og almennt gildir, að heilbr.- og trmrn. sjái um og beri ábyrgð á heilbrigðisþjónustu við fanga í fangelsum. Breytingar þær sem lagðar eru til byggja á áliti nefndar sem heilbr.- og trmrh. skipaði í október 1995 til að fara yfir skipulag heilbrigðisþjónustu við fanga.

Þá er í 2. og 3. gr. frv. lagðar til breytingar á 4. og 7. gr. laganna sem taldar eru nauðsynlegar í kjölfar þess að gæsluvarðhaldsfangelsið í Síðumúla var lagt niður. En gæsluvarðhaldsfangar eru nú vistaðir í afplánunarfangelsum. Síðumúlafangelsið var eina fangelsi landsins sem féll undir skilgreiningu laga um gæsluvarðhaldsfangelsi. Nokkuð þótti skorta á að aðbúnaður fanga væri fullnægjandi í fangelsinu auk þess sem nýting þess var orðin léleg. Fangelsinu var því lokað um mitt síðasta ár en gæsluvarðshaldsfangar hafa síðan verið vistaðir í Hegningarhúsinu í Reykjavík og á Litla-Hrauni.

Með vísan til þessa fyrirkomulags er lagt til að heimilt verði að starfrækja gæsluvarðhaldsdeildir í afplánunarfangelsum og að vista megi gæsluvarðhaldsfanga meðal afplánunarfanga ef einangrun telst ekki nauðsynleg.

Meginákvæði frv. lúta hins vegar að samfélagsþjónustu, samanber ákvæði 4. og 5. gr. þess. Lög um samfélagsþjónustu, nr. 55/1994, öðluðust gildi 1. júlí 1995 en var markaður gildistími til 31. des. 1997. Við samþykkt laganna var litið svo á að um tilraun væri að ræða. Sú tilraun þykir hafa gefist vel og er lagt til að áfram verði í lögum ákvæði um þetta refsivörsluúrræði.

Samfélagsþjónusta var fyrst tekin upp sem viðurlög við afbrotum í Bretlandi árið 1973. Eftir það hefur þetta úrræði verið tekið upp í sífellt fleiri löndum í Vestur-Evrópur og á Norðurlöndum ýmist sem sjálfstæð refsitegund eða sem skilyrði í tengslum við skilorðsbundinn dóm. Hér á landi hefur samfélagsþjónusta verið virt sem fyrirkomulag fullnustu óskilorðsbundinna refsivistardóma. Ef litið er til framkvæmdar þessa fullnustuúrræðis höfðu Fangelsismálastofnun í maímánuði sl. borist 132 umsóknir um samfélagsþjónustu frá upphafi. Í 95% tilvika var um að ræða umsóknir frá dómþolum sem brotið höfðu gegn ákvæðum umferðarlaga. Samþykktar umsóknir voru 84, þar af 17 þar sem dómþolar bjuggu utan höfuðborgarsvæðisins. Skilorðsrof hafa aðeins verið sex.

[14:45]

Fangelsismálastofnun hefur reynst vandkvæðalítið að útvega samfélagsþjónum hentuga vinnustaði og hefur þeim hvarvetna verið vel tekið. Miðað hefur verið við að þau störf sem komi til greina séu fyrst og fremst aðstoðarstörf hjá opinberum stofnunum, stofnunum sem njóta opinberra styrkja eða félagasamtökum. Verkefni hafa verið margs konar, t.d. þrif, viðhaldsvinna og umönnun og aðstoð við félagsstörf ungmenna og aldraðra, geðfatlaðra og annarra fatlaðra. Til marks um hve vel hefur gengið má geta þess að nokkrum dómþolum hefur verið boðin vinna að samfélagsþjónustunni lokinni og einnig eru dæmi þess að þeir hafi haldið áfram í sjálfboðavinnu.

Frv. byggir á þeirri forsendu að samfélagsþjónusta sé ekki tegund refsingar heldur sé um að ræða fyrirkomulag fullnustu á tilteknum óskilorðsbundnum refsivistardómum. Því er lagt til að ákvæðum um samfélagsþjónustu verði skipað í lög um fangelsi og fangavist svo sem er um önnur meginákvæði um fullnustu óskilorðsbundinna refsivistardóma. Með vísan til fenginnar reynslu er lagt til að gildissvið samfélagsþjónustu verði rýmkað og þannig verði heimilt að fullnusta allt að sex mánaða óskilorðsbundinni refsivist. Gert er ráð fyrir að af þessu leiði að dómum sem fullnustaðir verða með samfélagsþjónustu fjölgi um um það bil þriðjung eða um 25 dóma á ári.

Þá er lagt til að Fangelsismálastofnun taki ákvörðun um samfélagsþjónustu í stað samfélagsþjónustunefndar sem verið hefur. Rök fyrir þeirri tillögu er þau helst að í reynd metur nefndin aðeins það skilyrði hvort viðkomandi teljist hæfur til samfélagsþjónustu en önnur skilyrði eru hlutlæg. Framkvæmd hefur verið svo háttað að Fangelsismálastofnun hefur undirbúið tillögur til nefndarinnar um afgreiðslu mála og hefur nefndin án undantekninga fallist á tillögur stofnunarinnar. Það þykir því horfa til skilvirkari málsmeðferðar að Fangelsismálastofnun taki þessar ákvarðanir. Þá verður ekki séð að ákvarðanir um samfélagsþjónustu séu veigameiri eða flóknari en aðrar ákvarðanir er varða fullnustu dóms svo sem ákvarðanir um reynslulausn. Ákvarðanir samfélagsþjónustunefndar eru endanlegar samkvæmt gildandi lögum. Það leiðir hins vegar af almennum reglum stjórnsýsluréttar að ákvarðanir sem Fangelsismálastofnun tekur um samfélagsþjónustu má kæra til dómsmrh. Sú tilhögun horfir því til aukinnar réttarverndar fyrir umsækjendur um samfélagsþjónustu og samfélagsþjóna sem hlut eiga að máli. Gert er ráð fyrir að náðunarnefnd láti ráðherra í té rökstudda tillögu um afgreiðslu á erindum sem til hans er skotið vegna ákvörðunar Fangelsismálastofnunar um samfélagsþjónustu. En það er sami háttur og hafður hefur verið á um afgreiðslu mála vegna reynslulausnar og náðunarbeiðni.

Herra forseti. Ég hef rakið í meginatriðum efni frv. þessa og gert grein fyrir markmiðum þess. Megintillögur frv. lúta að tilhögun samfélagsþjónustu. Mikið hefur verið rætt og ritað um stöðu refsivistar í viðurlagakerfinu. Hefur sú stefna verið ríkjandi í þeim löndum sem næst okkur eru að draga beri úr notkun óskilorðsbundinna refsivistar eins og unnt er. Vel þykir hafa tekist til með samfélagsþjónustu á því reynslutímabili sem er nú um það bil að ljúka. Því er lagt til að ákvæðið um þetta fullnustuúrræði verði áfram í lögum með þeim efnisbreytingum sem ég hef nú reifað. En þar sem ákvæðin um samfélagsþjónustu falla úr gildi frá og með næstu áramótum er mjög mikilvægt að Alþingi geti fjallað um frv. og tekið afstöðu til þess fyrir áramót sé vilji fyrir því á hinu háa Alþingi eins og hér er lagt til að þessu úrræði verði fram haldið í löggjöf með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir. Ég vænti þess að góð samstaða geti tekist um þá málsmeðferð í hv. þingnefnd.

Ég legg svo til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. allshn.