Fangelsi og fangavist

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 14:49:42 (1506)

1997-11-20 14:49:42# 122. lþ. 31.5 fundur 291. mál: #A fangelsi og fangavist# (heilbrigðisþjónusta, vistun gæsluvarðhaldsfanga og samfélagsþjónusta) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur

[14:49]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég fagna mjög því frv. sem hæstv. dómsmrh. hefur flutt og tel að samfélagsþjónusta, sem fjallað er um í frv., sé mjög mikilvægur þáttur í fullnustu refsivistar utan fangelsis.

Ég held að flestir séu sammála þeirri stefnu sem fylgt hefur verið að gera fullnustu refsidómanna mannúðlegri, t.d. með vinnuskyldu og menntunarmöguleikum fanga og meðferðarúrræðum í lok refsivistar, t.d. í áfengismálum og refsifullnustu utan fangelsis eins og á vegum Verndar og ekki síst samfélagsþjónustunnar sem var tekin upp fyrir tveimur til þremur árum. Þegar lagt er mat á varnaðaráhrif refsinga og hvort þróa eigi áfram í meira mæli refsifullnustu utan fangelsis er mikilvægt að ítarleg athugun og úttekt á fullnustu refsingar liggi fyrir og ekki síst hvort telja megi fullnustu utan fangelsis hafa sérstök varnaðaráhrif umfram það að afplána refsivist að fullu í fangelsi.

Ég tek eftir því að í grg. með frv. kemur fram að nauðsynlegt væri að kanna þá reynslu sem fengist hefur af samfélagsþjónustu. Ég tel að nokkuð skorti að gerð sé könnun á fullnustu refsidóma utan fangelsis og bera það saman við fullnustu innan fangelsis og ég tel að það hafi ekki verið gert nægjanlega, ekki heldur varðandi samfélagsþjónustuna. Ég spyr hæstv. ráðherra um mat hans á því hvort hann telji ekki nauðsynlegt að athugun fari fram á fullnustudómum utan fangelsis samanborið við fullnustu refsinga innan fangelsis og hvort fullnusta utan fangelsis hafi sérstök varnaðaráhrif umfram það að afplána refsivist að fullu í fangelsi. Ég held að mjög mikilvægt sé að við höfum eitthvert slíkt mat vegna þess að ég tel að þróunin hljóti að vera sú að við leggjum meiri áherslu á það, að undangengnu mati á því, að þróa áfram refsifullnustu utan fangelsis. Ég held að þegar borin er saman refsifullnusta utan fangelsis og innan hljóti langtímafangelsisdómur frekar að brjóta fangann niður og herða hann á móti samfélaginu en að hafa tilætluð varnaðaráhrif sem ætla má að fullnusta utan fangelsis hafi frekar.

Frv. fjallar um að heimilt verði að fullnusta allt að sex mánaða óskilorðsbundna refsivist með samfélagsþjónustu í stað þriggja áður og að tryggja betur heilbrigðisþjónustu fyrir fanga. Ég fagna þessu mjög og tel til mikilla bóta en gert er ráð fyrir breytingum á almannatryggingalöggjöfinni í frv. sem tryggir að fangar njóti sjúkratrygginga samkvæmt almennum reglum sem um þær gilda. Maður hlýtur að velta fyrir sér hvaða áhrif þessi lenging hefur að mega fullnusta dóma sem eru sex mánuðir eða minna með samfélagsþjónustu.

Í skýringum hæstv. ráðherra með frv. kemur fram að þegar litið er á þau brot sem framin hafa verið og hverjir það eru sem hafa fengið að fullnusta refsingu með samfélagsþjónustu að þá er helst um að ræða umferðalagabrot eða í 95% tilvika. Ég spyr hæstv. ráðherra, þegar við erum að framlengja þetta í sex mánaða dóma hvort hægt sé að sjá það eða leggja mat á það eða hvort það hafi verið gert, hvaða brotaflokkar eða refsidómar það væru helst sem bættust við með því að lengja samfélagsþjónustu eða þeir sem geti notað samfélagsþjónustuna, þ.e. þeir sem hafa fengið refsingar sem eru sex mánuðir eða styttri. Mun það breyta mynstri þeirra afbrota sem hægt er að fullnusta innan samfélagsþjónustunnar?

Síðan var eitt sem kom mér nokkuð á óvart við lestur frv. sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir en hefur verið varðandi samfélagsþjónustuna, að miðað er við að 40 klst. vinna í samfélagsþjónustu svari eins mánaðar refsivist, þ.e. 40 klst. vinna samsvarar þá viku vinnu eins og hún er almennt skilgreind. Ég hélt satt að segja að þeir sem fengju að fullnusta dóm sinn með samfélagsþjónustu hefðu vinnuskyldu í þrjá mánuði en ekki eins og þarna virðist vera að það sé bara ein vika í hverjum mánuði. Það kom mér satt að segja nokkuð á óvart. En hér er verið að bæta við þennan hámarksfjölda sem nú 120 klst., sem virðist ekki vera í framkvæmd með þeim hætti, upp í 240 klst. Ég spyr þá: Ef það er almenna reglan að 40 klst. samsvari eins mánaðar refsivist getur ráðherrann þá skýrt hvað liggi að baki því mati að hér sé um 40 klst. eða einnar viku vinnu að ræða sem samsvarar eins mánaðar refsivist?

Ég á sæti í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar og ég mun fyrir mitt leyti leggja áherslu á hraða umfjöllun í nefndinni enda eru okkur sett ákveðin tímamörk því ný lög eiga að taka gildi um næstu áramót. En ég ítreka spurningar mínar til ráðherra sem ég tel ástæðulaust að endurtaka nema ef ég fæ ekki svör við þeim í umræðunni.