Goethe-stofnunin í Reykjavík

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 15:03:28 (1509)

1997-11-20 15:03:28# 122. lþ. 31.6 fundur 256. mál: #A Goethe-stofnunin í Reykjavík# þál., Frsm. TIO
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur

[15:03]

Frsm. utanrmn. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. við till. til þál. um Goethe-stofnunina í Reykjavík frá utanrmn. og geri grein fyrir nefndaráliti á þskj. 372.

Brtt. sem hv. utanrmn. flytur hér er svohljóðandi:

,,Tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar, með hliðsjón af hinum góðu samskiptum Íslands og Þýskalands, að lýsa yfir stuðningi við þau tilmæli ríkisstjórnarinnar til þýskra stjórnvalda að tryggja að Goethe-stofnunin í Reykjavík verði starfrækt áfram.

Jafnframt hvetur Alþingi ríkisstjórnina til að stuðla að því að af Íslands hálfu verði aukin kynning á íslenskri menningu í Þýskalandi.``

Í nefndaráliti hv. utanrmn. um þetta mál kemur fram að nefndin hefur fjallað um tillöguna. Hún fékk á sinn fund Helga Ágústsson ráðuneytisstjóra og Guðna Bragason frá utanrrn. Ríkisstjórnin hefur haft samband við þýsk stjórnvöld í því skyni að fá þau til að endurskoða ákvörðun að loka Goethe-stofnuninni í Reykjavík. Utanrrh. hefur m.a. sent hinum þýska starfsbróður sínum bréf þar að lútandi. Nefndin styður þessi tilmæli ríkisstjórnarinnar. Breytingartillaga nefndarinnar lýtur að þessu orðalagi en er ekki efnisleg.

Hv. þm. Gunnlaugur M. Sigmundsson gerir fyrirvara um málið sem felst í því að hann telur eðlilegt að á sama tíma og íslensk stjórnvöld þrýsta á um að þýsk stjórnvöld haldi áfram rekstri Goethe-stofnunarinnar í Reykjavík lýsi þau sig jafnframt reiðubúin til að taka þátt í þeim kostnaði sem af því hlýst.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með þeirri breytinu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Undir þetta nefndarálit rita Geir H. Haarde formaður, Tómas Ingi Olrich frsm., Össur Skarphéðinsson, Siv Friðleifsdóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Árni R. Árnason, Svavar Gestsson, Gunnlaugur M. Sigmundsson, með fyrirvara, og Kristín Ástgeirsdóttir.

Herra forseti. Það hefur verið gott samstarf um mennta- og menningarmál milli Þjóðverja og Íslendinga. Byggist þetta samstarf á margvíslegum forsendum en ekki síst á þeirri forsendu að þjóðirnar eiga sameiginlegan menningararf og er framlag íslenskrar miðaldamenningar til samgermanskra menningarverðmæta jafnframt einn af mikilvægustu þáttunum í íslenskri þjóðmenningu. Mikill fjöldi Íslendinga hefur sótt menntun sína til Þýskalands og tengsl þjóðanna hafa ekki síst orðin náin af þeim sökum. Þýskaland er eitt af þeim ríkjum þar sem mestur áhugi er á Íslandi og Íslendingum og sýna í raun upplýsingar um vægi þýskra ferðamanna á Íslandi ljóslega þennan mikla áhuga.

Það er ljóst og hefur komið fram á fundum utanrmn. að áform um að loka Goethe-stofnuninni eru ekki byggð á því að vægi menningartengsla Íslands og Þýskalands sé nú með einhverjum hætti talin vera minna en verið hefur. Nauðsynlegt er að huga að því með hvaða hætti þessum menningartengslum verði best þjónað og að báðir aðilar leggist á eitt um að rækta sameiginlegan menningararf. Ef menningarsamstarf þjóðanna verður endurskoðað er það álit utanrmn. að samstarfið beri að efla.

Í þáltill., ef samþykkt verður, lýsir Alþigi þeim vilja sínum að af hálfu Íslands verði aukin kynning á íslenskri menningu í Þýsklandi. Felur sú viljayfirlýsing það í sér að menningartengsl Íslands og Þýskalands beri að styrkja.