Framkvæmd laga um réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 13:58:09 (1524)

1997-12-02 13:58:09# 122. lþ. 32.2 fundur 105#B framkvæmd laga um réttindi sjúklinga# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[13:58]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Vissulega er lagasetning um réttindi sjúklinga mikilvæg en það er lágmark að þessi lög sem nýlega hafa verið sett, þau voru sett síðasta vor, séu ekki brotin. Nú er ljóst, a.m.k. að mati landlæknis, að verið er að brjóta þau lög daglega miðað við þá þjónustu sem boðið er upp á á sérgreinasjúkrahúsunum. Í lok vakta er á við heila legudeild liggjandi á göngum. Það er ekki sú þjónusta sem talað er um í lögum um réttindi sjúklinga sem boðið er upp á á göngunum. Og að fjórði hver sjúklingur sem kemur inn á bráðavaktirnar skuli leggjast inn á gang er auðvitað ekki samkvæmt lögunum sem við samþykktum í vor. Við segjum einmitt í þeirri lagasetningu að það eigi alls ekki að bjóða upp á þetta. Telur hæstv. ráðherra að það sé eðlilegt og að það sé samkvæmt lögunum að fólk fái þessa þjónustu veitta á göngum fyrir almannasjónum eða að það fái ekki heimahlynningu tryggða þegar það er útskrifað af sjúkrahúsunum? Ég óska eftir svari við þessu, herra forseti.