Sala á Pósti og síma hf.

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 14:03:52 (1529)

1997-12-02 14:03:52# 122. lþ. 32.2 fundur 106#B sala á Pósti og síma hf.# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[14:03]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Mér er mjög ljúft að svara þessari fyrirspurn sem er mjög kærkomin. Ég er þeirrar skoðunar að enginn vafi sé á því að á síðustu vikum hafi komið mjög í ljós að fyrirtæki sem rekið er alfarið í eigu ríkisins hafi ekki forsendur til að standa sig í harðri samkeppni og allra síst í grein sem er alþjóðleg. Fjarskipti eru alþjóðleg og ekki bundin við landamæri þannig að við hljótum að tala um heimsmarkað þegar við tölum um samkeppni á fjarskiptamarkaði. Af þeim sökum hef ég talið bráðnauðsynlegt að kannað sé hvaða kostir fylgi því að endurskoða þá ákvörðun að Landsíminn verði ekki alfarið í eigu ríkisins. Hv. þm. mismælti sig hér áðan --- það kemur nú kannski fyrir fleiri en mig --- þegar hann talaði um að ég hefði viljað selja Póst og síma hf. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt verður Pósti og síma hf. skipt upp um næstu áramót. Landsíminn hf. mun annast fjarskiptasviðið. Ég er með það í athugun og hef lýst þeirri skoðun minni að nauðsynlegt sé að slíkt fyrirtæki geti keppt á sömu forsendum og önnur sambærileg fyrirtæki, það verði að byggja á trausti og trúnaði og af þeim sökum hljóti fyrri ákvarðanir mínar að koma til endurskoðunar.

Ég þakka hv. þm. fyrir að beina þessari fyrirspurn til mín hér í sölum Alþingis til þess að svar mitt afdráttarlaust geti komið fram.