Sala á Pósti og síma hf.

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 14:05:48 (1530)

1997-12-02 14:05:48# 122. lþ. 32.2 fundur 106#B sala á Pósti og síma hf.# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[14:05]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég mun sjá til þess að hæstv. samgrh. fái fleiri tækifæri til að þakka mér fyrir að vekja máls á þessu.

Hann talaði um traust og trúnað. Hann segir að nú sé hann þeirrar skoðunar að selja eigi símann. Hér lýsti hann því yfir á Alþingi þegar Pósti og síma var breytt í hlutafélag að ekki stæði til að selja hlutaféð. Er hæstv. samgrh. ekki þeirrar skoðunar að ráðherrum beri að segja satt og rétt frá og efla þannig traust og trúnað á stjórnmálamönnum? Hann virðist ekki starfa í anda þessa í þessu máli.

Hann lýsti því yfir opinberlega fyrir fáeinum dögum að breyting á Pósti og síma í hlutafélag hefði af sinni hálfu verið hugsuð sem millileikur, það hefði verið millileikur. Og nú hvet ég alþingismenn og fjölmiðla og alla sem láta sig heiðarleika í stjórnmálum nokkru skipta að rifja upp ummæli hæstv. ráðherra í þessu máli þegar Pósti og síma var breytt í hlutafélag.